Mikið tjón varð í Há­skóla Ís­lands í nótt þegar rof kom á kalda­vatns­æð við aðal­byggingu skólans við Sæ­mundar­götu og vatn tók að flæða inn í byggingar. Að­spurður um tjón segir varð­stjóri hjá Slökkvi­liðinu á höfuð­borgar­svæðinu það vera ljóst að um mjög mikinn leka var að ræða.

Lekinn uppgötvaðist klukkan rétt rúm­lega eitt í nótt í stjórnstöð vatns hjá Veitum þegar mikið þrýstingsfall varð í dreifikerfi kalda vatnsins vestan Snorrabrautar. Slökkvi­liðið var sent strax á vett­vang til að að­stoða við að dæla út vatni. Þá voru starfs­menn Há­skóla Ís­lands ræstir út til að opna byggingar og starfs­menn Veitna komu og lokuðu fyrir vatns­æðina. Framkvæmdir hafa verið í gangi við endurnýjun vatnslagna á Suðurgötu og er lekinn talinn tengdur þeim.

Í tilkynningu frá Veitum kemur fram að lekinn hafi staðið í 75 mínútur áður en náðist að loka fyrir vatnsæðina, það runnu því út um 2250 tonn af vatni.

Að sögn varð­stjóra hafa um 15 til 20 slökkvi­liðs­menn unnið að hreinsun í nótt og er reiknað með því að þeir verði að störfum í skólanum fram eftir degi. Auk aðal­byggingar skólans eru Árna­garður, Gimli og Stúdenta­kjallarinn meðal annars á floti.

Fréttin hefur verið uppfærð.