Dómsmál

Birti „hótunar­status“ en neitar að hafa hótað

Hjörtur Howser neitar að hafa haft í hótunum við lögreglumenn.

Hjörtur hefur komið víða við en undanfarin ár hefur hann séð um allan undirleik fyrir Ladda. Myndin er frá 2006. Fréttablaðið/Haraldur Jónasson

Hjörtur Howser tónlistarmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í gær dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi, meðal annars fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa hótað tveimur lögregluþjónum líkamsmeiðingum á Facebook-síðu sinni. Hann var sömuleiðis ákærður fyrir vopnalagabrot eftir að á á honum fannst skammbyssa. 

Hjörtur, sem bauð sig fram til Alþingis fyrir Lýðræðisvaktina árið 2013, var sakaður um að hafa hótað lögreglumönnunum á Facebook-síðu sinni. Hann birti tengil á frétt Stundarinnar sem var með mynd af tveimur lögregluþjónum og fyrirsögninni: „Myndband: Lögreglumenn drógu hælisleitendur út úr kirkju“. Hjörtur skrifaði við færsluna: 

„VARÚÐ – HÓTUNARSTATUS!  Ég vil fá að vita nöfn þessara tveggja lögreglubjána, útbólginna steraneitenda með hallærislegar „Game-of-Thrones“ klippingar sínar – því ég ætla heim til þeirra og berja þá í andlitið – nákvæmlega eins kjaftshögg og þeim finnst eðlilegt og sjálfsagt að berja mann í andlitið á kirkjutröppum – þar sem grið höfðu rofin og 16 ára gamall drengur dreginn burt með lögregluofbeldi“.

Ekki um hótun að ræða

Hjörtur neitaði sök og kvað skrifin ekki hafa verið hótun í garð lögreglumannanna. Færslan hafi verið rituð í reiði, kaldhæðni og dómgreindarleysi og að fyrst og fremst hafi reiði hans beinst að málsmeðferð hælisleitenda hér á landi. Honum hafi hins vegar gramist að annar lögreglumannanna hafi slegið til ungs manns sem stóð utan kirkjunnar. 

Þá þvertók hann fyrir það að ætlunin hafi verið að vekja ótta hjá lögreglumönnunum, hvað þá að hann hafi haft í huga að fylgja skrifum sínum eftir með ofbeldi. 

Lögreglumennirnir sögðust báðir hafa tekið skrif Hjartar alvarlega og litu á þau sem hótun um ofbeldi. Í kjölfarið hafi þeir orðið varari um sig en ella. Annar þeirra sagðist allt eins hafa átt von á því að Hjörtur kæmi að heimili hans og fylgdi hótun sinni eftir gagnvart sér, eiginkonu eða barni. 

„Þrátt fyrir neitun ákærða þykir sannað að í áðurnefndri færslu hans hafi falist hótun um að beita umrædda lögreglumenn líkamlegu ofbeldi, enda segir þar berum orðum að hann ætli „heim til þeirra og berja þá í andlitið“. Hótun þessi var til þess fallin að vekja hjá þeim ótta og kváðust þeir báðir hafa tekið hana alvarlega,“ segir í dómsorði. 

Hjörtur játaði vopnalagabrotið, en á heimili hans í ágúst í fyrra fannst skammbyssa af gerðinni Astra Falcon Model 4000 22, cal, skotgeymir fyrir skammbyssuna og þrjú stykki af skotfærum, án þess að hann hefði tilskilið leyfi. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki ábyrgst að óviðkomandi aðilar næðu til skammbyssunnar. 

Sem fyrr segir bauð Hjörtur sig fram fyrir Lýðræðisvaktina árið 2013, og var þá greint frá því að hann hefði verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, eftir að hafa kýlt annan mann í bringuna og hrint honum. 

Hjörtur hefur oft komist í fréttirnar, en hann var hljómborðsleikari gleðisveitarinnar Kátir piltar frá Hafnarfirði og hinnar margrómuðu hljómsveitar Grafík. Hann spilaði einnig með Bubba Morthens í sveitinni MX-21 og hefur undanfarin ár séð um allan undirleik fyrir Ladda á öllum hans vinsælu sýningum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Dómsmál

Ákvörðun MDE væntanleg í máli Landsréttar

Dómsmál

Kirkjan fékk lægri bætur en hún vildi

Dómsmál

Fimm ár fyrir Shooters-árás

Auglýsing

Nýjast

Tólf ára blaða­kona lét lög­reglu­mann heyra það

Þyrlan sótti göngu­menn upp á Tungna­fells­jökul

Fjallað um fyrir­hugaðar hval­veiðar í er­lendum miðlum

Plok­kver­tíðin að hefjast hjá Atla

Segja RÚV upp­hefja eigin verk á kostnað fag­manna

Leit lokið í dag: „Mikill sam­hugur á Ír­landi“

Auglýsing