„Djöfulsins ólögleg erum við orðin.“ Þetta sagði einn af stjórnendum leigubílaþjónustunnar Uber (í lauslegri þýðingu blaðamanns) í einum af fjölmörgum póstum og skilaboðum sem sendir voru milli starfsmanna félagsins á árunum 2014 til 2017. Um er að ræða formannstíð Travis Kalanick, meðstofnanda Uber, sem beitti sér afar kröftuglega fyrir útþenslu fyrirtækisins.

Rúmlega 124.000 skjölum var lekið til breska fjölmiðilsins The Guardian frá Uber þar sem innsýn er veitt í ýmsar vafasamar aðferðir sem Uber hefur beitt til að brjóta sér leiðir inn á alþjóðlega markaði. Meðal annars kemur fram í skilaboðunum hvernig starfsmenn Uber hafa komið sér undan eftirliti stjórnvalda með beitingu svokallaðra neyðarrofa til að slökkva á gagnavöfrum sínum þegar eftirlitsmenn bar að garði.

Þá sést í gögnunum hvernig hagsmunafulltrúar Uber hafa ítrekað komið sér í samband við stjórnmálamenn og aðra áhrifamenn til að liðka til í löggjöf og reglugerðum landa svo hægt sé að reka þar Uber-þjónustur. Fyrirferðamestur meðal ráðamannanna í gögnunum er Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem virðist hafa átt í miklum samskiptum við forstjóra Uber, Travis Kalanick, á meðan Macron var fjármálaráðherra Frakklands frá 2014 til 2016.

Árið 2014 höfðu hin svokölluðu Thévenoud-lög verið búin að hefta möguleika Uber til að starfa í Frakklandi verulega. Í reynd höfðu lögin alfarið bannað UberPop-þjónustu fyrirtækisins, sem heimilaði hverjum sem er að starfa af og til sem bílstjóri fyrir fyrirtækið. Þessi þjónusta hafði verið mjög umdeild meðal franskra leigubílstjóra, sem höfðu staðið fyrir heiftúðlegum mótmælum gegn Uber í Frakklandi.

Í skjölunum sem lekið var er greint frá því að Macron hafi fundað með fjórum fulltrúum Uber í franska fjármálaráðuneytinu þann 1. október 2014. Í pósti sem var meðal gagnanna lýsti Mark MacGann, einn af hagsmunafulltrúum Uber, fundinum með Macron sem „stórkostlegum.“ Árið 2015 skrifaði Macron svo undir tilskipun sem mildaði kröfurnar um skráningu Uber-bílstjóra.

Travis Kalanick sagði af sér sem forstjóri Uber árið 2017 og eftirmaður hans, Dara Khosrowshahi, hefur lofað bót og betrun í viðskiptaháttum fyrirtækisins. Khosrowshahi segir efni tölvupóstanna bera merki um menninguna innan Uber á stjórnartíð Kalanicks en að Uber sé annað og betra fyrirtæki í dag.