Varnarmálaráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hófu tveggja daga fund í Brussel í dag til að ræða vopnasendingar til Úkraínu og umsóknir Svíþjóðar og Finnlands að hernaðarbandalaginu. Hávær köll hafa verið frá úkraínskum stjórnvöldum um frekari vopnasendingar til að verjast innrásarher Rússa í austurhluta Úkraínu.

„Sama hve mikið Úkraína leggur á sig, sama hve faglegur herinn okkar er, án hjálpar vestrænna félaga okkar getum við ekki unnið þetta stríð,“ sagði Hanna Maljar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, á blaðamannafundi í gær. Hún bætti við að hingað til hefðu Úkraínumenn aðeins fengið um tíu prósent af vopnunum sem þeir hefðu beðið um til að halda í við rússneska herinn. Úkraínumenn væru að skjóta um 5.000 til 6.000 skotum úr stórskotaliðstækjum á dag en Rússar væru að skjóta allt að tíu sinnum meira.

Áður en fundurinn hófst sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að aðildarríki bandalagsins myndu halda áfram að sjá Úkraínu fyrir þungvopnum og langdrægum vopnakerfum. Hann bjóst við því að fallist verði á nýjan hjálparpakka fyrir Úkraínu á leiðtogafundi NATO í Madríd eftir tæpar tvær vikur. „Stundum taka svona hlutir tíma,“ sagði hann. „Einmitt þess vegna er mikilvægt að halda fundi eins og í dag, til að hitta fulltrúa Úkraínu svo þeir geti bent á áskoranirnar og vandamálin sem þeir vilja vekja athygli okkar á.“

Áætlað er að Oleksíj Rezníkov, varnarmálaráðherra Úkraínu, fái tækifæri til að skýra starfssystkinum sínum innan NATO um þarfir Úkraínumanna.

Stoltenberg sagðist ekki geta tilgreint tímaramma um aðild Svíþjóðar eða Finnlands að NATO. Tyrkir hafa sett sig á móti inngöngu ríkjanna í Atlantshafsbandalagið vegna meints stuðnings þeirra við Verkalýðsflokk Kúrda og aðrar kúrdneskar þjóðernishreyfingar. „Markmið mitt er að leysa úr þessum ágreiningi eins fljótt og auðið er, en þar sem við erum mörg ríki í þessu ferli er ógerningur að segja nákvæmlega hvenær þetta verður leyst,“ sagði Stoltenberg.