Ljósmyndarinn Sunna Ben varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að ljósmynd sem hún tók af yngri systur sinni hefur farið á flug á samfélagsmiðlum og hefur meðal annars verið notuð í auglýsingar og söluvarning erlendis. „Þetta er nokkuð tvíeggjað sverð því þessir miðlar eru mikilvægir til þess að koma verkum sínum á framfæri. Á móti þá eru maður illa varinn fyrir slíkum hugverkaþjófnaði,“ segir Sunna.

Hún segist hafa lent í nokkrum slíkum tilvikum þar sem verk hennar eru notuð í leyfisleysi en að ljósmyndin af systur hennar sé sú sem farið hefur víðast, að því er hún best veit.

„Þessi mynd var tekin árið 2012 en þegar systir mín var lítil þá fékk hún nokkuð reglulega blóðnasir. Það var ekkert stórmál og því er hún skælbrosandi með fossandi blóð á myndinni. Það er kannski ekkert sérstaklega algengt í slíkum aðstæðum og því er myndin nokkuð sérstök,“ segir Sunna.

Svo skemmtilega vill til að systir Sunnu hefur sjálf haft frumkvæði að því að finna myndina víða á netinu. „Kata systir mín er miklu klárari á netinu en ég. Hún gerði öfuga myndaleit og fann myndina úti um allt á netinu, sérstaklega í Rússlandi. Þar hefur hún verið prentuð á boli og notuð í auglýsingar sem margar hverjar eru mjög illa unnar,“ segir Sunna.

Um helgina rakst hún síðan á illa unna útgáfu af myndinni á Instagram-síðu hjá íslenskum manni. „Þegar ég hef rekist á myndirnar mínar í birtingu á samfélagsmiðlum og bent fólki á höfundarrétt minn þá fjarlægja flestir myndirnar tafarlaust og biðjast innilegrar afsökunar. Þessi maður brást hins vegar við með því að segjast ekki trúa því að ég hefði tekið myndina,“ segir Sunna.

Upplifunin hafi verið furðuleg en opnað augu hennar fyrir því hvað listamenn eru varnarlausir gagnvart slíku. „Ég áttaði mig á því að það væri ekki hlaupið að því að sanna það að ég hefði tekið myndina,“ segir Sunna. Við tóku nokkuð skrýtin samskipti við manninn sem að endingu tók þó myndina úr birtingu.

Varðandi útbreiðsluna í Rússlandi hyggst Sunna leita ráða hjá Myndstefi en hún segist ekki bjartsýn á að fá eitthvað fyrir sinn snúð. „Ég ákvað því að birta söguna á bak við myndina á Facebook-síðunni minni. Það er mikilvægt að deila slíkum sögum og að allir átti sig á því að á bak við myndir eru myndasmiðir og það er aldrei í lagi að nota myndir án leyfis eða án þess að geta höfundar.“