Heildarkostnaður Hafnarsjóðs Ísafjarðarbæjar vegna snjóflóðanna á Flateyri í janúar er um 25 milljónir króna samkvæmt nýrri skýrslu Guðmundar M. Kristjánssonar hafnarstjóra. Þar af eru rúmlega 11 milljónir króna sem ekki féllu undir undir tryggingar.

Hafnarstjóri telur tjón einstaklinga og fyrirtækja mun meira. „Má gera ráð fyrir að það sé á bilinu eitt til tvö hundruð milljónir ef allt væri talið fram,“ segir hann í skýrslunni.

Vinna við hreinsun og viðgerðir hefur staðið yfir alla mánuði ársins. Í höfninni sé nú lega bátsins Orra ÍS einu ummerki um snjóflóðið. Af þeim sex bátum sem voru við bryggju þegar snjóflóðið skall á var Orri sá eini sem ekki var tryggður. Telur hafnarstjóri eigandann sitja uppi með allt tjón sitt sjálfur, enda séu tryggingar skilyrði þess að fá bætur úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Fjórir bátar sukku en tveir strönduðu á hvolfi.

Hafnarstjóri telur núverandi varnargarða óviðunandi því að líklega hafi hann beint flóðinu í höfnina. Bent hafi verið á þessa hættu áður en snjóflóðið skall á. Einstaklingar og fyrirtæki verði að geta verið með eigur sínar og atvinnutæki í höfninni áhyggjulaust. Í skýrslunni beinir hann þeim tilmælum til yfirvalda að byggja ný varnarmannvirki til að vernda höfnina eins fljótt og auðið er.