Núgildandi reglur taka ekki á þeim raunveruleika sem borgin stendur frammi fyrir er varðar óleyfisbúsetu. Á fundi Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs var lagt fram minnisblað Guðrúnar Elsu Tryggvadóttur lögfræðings þar úrbætur voru ræddar.

Þessar úrbætur þurfa að eiga sér stað með yfirferð á lögum og reglum, en einnig breyttu verklagi þeirra stofnana sem bera ábyrgð á eftirliti með byggingum.

Úrbæturnar fela í sér að auka við núgildandi eftirlitsheimildir byggingafulltrúa, en eins og staðan er í dag varða þær aðeins ytra byrði húsnæðis. Ef auka á heimildir byggingafulltrúa svo að þær nái til innra byrðis, þyrfti sérstaka heimild til þess. Þá þarf að auka eftirlit með leyfisskyldum breytingum, endurskoða eftirlit með skráningu lögheimilis, sem og því húsnæði sem atvinnurekendur útvega.

Borgaryfirvöld hafa takmarkaðar heimildir til að skipta sér af íbúðarhúsnæði í einkaeigu, sem gerir eftirlit og inngrip erfitt. Þar sem eigandi húsnæðis ber ábyrgð á ástandi þess verður ósk um aðgerðir almennt að koma frá honum sjálfum. Því geta heilbrigðiseftirlit, slökkvilið eða byggingarfulltrúi ekki gert úttekt á innra byrði húsnæðis að eigin frumkvæði. Eingöngu íbúar eða umráðamenn húsnæðis geta óskað eftir skoðun og áhættumati á heimili sínu.

„Jafnvel þó leigjendur í húsinu séu meðvitaðir um hættuna kann ótti við að vera vísað úr húsnæðinu að koma í veg fyrir að leigjendur hafi samband við yfirvöld,“ segir í minnisblaði Guðrúnar.

Þar kemur einnig fram að niðurstöður verkefnis frá 2017 sýni að hérlendis sé þekking á húsnæðisaðstæðum innflytjenda takmörkuð. Erfitt hefur reynst að ná til þessa hóps og rannsóknir eru því fáar. Þó er ljóst að skráningu á búsetu einstaklinga er ábótavant og lítið eftirlit haft með henni, skortur er á íbúðarhúsnæði í borginni og leiguverð hátt. Erlendum fyrirtækjum og starfsmannaleigum hefur farið fjölgandi hér á landi og á sama tíma hefur óleyfileg búseta í atvinnuhúsnæði aukist.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands lögðu fram bókun á fundi ráðsins, þar sem kom fram að minnisblaðið var tekið saman í kjölfarið á brunanum á Bræðraborgarstíg þar sem þrír létust.

„Brýnt er að bregðast við og gera nauðsynlegar breytingar til að fyrirbyggja að svona harmleikur endurtaki sig,“ segir í bókuninni.