Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og stjórnarmaður Reykjavíkurborgar í Sorpu, sat fyrir svörum minnihlutans um stöðu Sorpu í tengslum við nýja gas- og jarðgerðastöð, GAJA, sem notast mun við tækni frá danska fyrirtækinu Aikan A/S.

Hún sagðist hafa borið bjartsýni í brjósti um að umræður innan borgarstjórnar yrðu uppbyggilegar en varð svo vonsvikin og sagðist taka fátt með sér inn í endurreisn Sorpu.

„Rangfærslur eru teknar gagnrýnislaust upp og það er ekki einu sinni gerð tilraun til að gúgla,“ sagði Líf á fundinum í dag.

Fara í markaðsþróun fyrir metan og moltu

„Frá því að þessi mál hafa komið upp hefur núverandi stjórn Sorpu ásamt nýjum framkvæmdastjóra, framkvæmdastjórn félagsins og fjármálastjórum unnið nótt sem nýtan dag við það að endurskipuleggja fyrirtækið fjárhagslega og endurreisa Sorpu sem það umhverfis- og þekkingarfyrirtæki sem henni ber að vera,“ sagði Líf.

Stjórnin hafi ráðið verkefnastjóra í markaðsþróun fyrir metan og moltu og að nýtt skipurit hafi verið tekið í gagnið í dag. Minnihlutinn velti fyrir sér á fundinum í dag hvort markaður væri á Íslandi fyrir slíka framleiðslu.

Mikil óánægja er vegna framkvæmdanna sem hafa kostað íbúa höfuðborgarsvæðisins um 5,3 milljarða króna.

Ekki hægt að bera stöðvarnar saman

Tæknin sem notuð verður til að endurvinna sorpið kemur frá danska fyrirtækinu Aikan. Fyrirtækið hóf framkvæmdir við nýja gas- og jarðgerðarstöð í bænum Elverum í Noregi árið 2006 en en henni var lokað fimm árum síðar án þess að komast almennilega í gagnið. Nánar er hægt að lesa um það í umfjöllun Stundarinnar.

Líf segir að upplýsingar sem Sorpa býr yfir um stöðina í Elverum í Noregi vera af skornum skammti. Hún bendir á að þar hafi ekki verið metanframleiðsu og moltuframleiðsla hafi farið fram utandyra með tilheyrandi lyktarvandamálum.

„Veðurfarslegar aðstæður sköpuðu vandkvæði og framleiðsluferill stöðvarinnar var mun ófullkomnari en sem verður í GAJA þar sem moltuframleiðslan fer fram innandyra. Það er varla hægt að bera þessar tvær stöðvar saman,“ sagði Líf og telur mikilvægt að óska eftir upplýsingum ef vandamálið með stöðina í Elverum hafi verið fleiri en bara lyktarmengun.