Varhugaverðar tegundir myglu sem þekktar eru fyrir að geta myndað sveppaeiturefni og verið öðrum fremur heilsuspillandi þegar þær vaxa innanhúss fundust við sýnatöku í Fossvogsskóla í sumar. Þetta kemur fram í niðurstöðum tegundagreiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ). Búið er að gera við þá staði sem myglan fannst á.

Ráðist var í sýnatöku í sumar í kjölfar þess að foreldrar stigu fram og sögðu frá því að nemendur fyndu enn fyrir einkennum þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir við skólann í fyrra.

Fram kemur í minnisblaði verkfræðistofunnar Verkís að alls hafi verið tekin 87 snertisýni og rakamælingar framkvæmdar við alla útveggi. Þar af voru 15 sýni sem mældust með hækkuð gildi, var þá ráðist í þrif eða lagfæringar. Gildin mældust há á nokkrum stöðum, var meðal annars í hornum á tveimur stofum þar sem skipt var um dúk, þá var parketlagt í horni smíðastofu.

Þá mældust gildi mjög há í kringum loftristar í tveimur stofum í austurbyggingu skólans, segir í minnisblaðinu að augljóst sé að þær séu aldrei þrifnar. Var loftristin þrifin.

Í kjölfar kvörtunar frá foreldrum var gerð mjög ítarlega skoðun á tveimur stofum í austurbyggingunni. Fundust þar skemmdir sem gætu haft áhrif á mjög viðkvæma einstaklinga. Þær skemmdir voru fjarlægðar tveimur sólarhringum síðar. Einnig voru fjarlægðar rakaskemmdar loftplötur fyrir framan lyftu í sömu byggingu.

Fjögur sýni voru send til tegundagreiningar. Eru sýnin þá ræktuð í skál. Um er að ræða sýni sem voru tekin af stöðum þar sem skipta þurfti um dúk og parket, auk sýnis sem tekið var af límtrésbita.

Fram kemur í samantekt NÍ að ekki séu sérlega margar myglutegundir á hverri skál. „Hins vegar uxu þarna varhugaverðar tegundir sem þekktar eru fyrir að geta myndað sveppaeiturefni og verið öðrum fremur heilsuspillandi þegar þær vaxa innanhúss,“ segir í samantektinni. Þær tegundir sem fundust dreifa gróum sínum í lofti og eiga því greiða leið langt niður öndunarveg fólks. „Það var nokkuð athyglisvert hvað grámygla kom oft fyrir í skálunum. Venjulega sést hún sjaldan og þá lítið af henni. Hún vex helst á skemmdum ávöxtum en getur einnig vaxið í illa förnum byggingarefnum þótt það sjáist sjaldan.“