Skipstjóri á íslensku togskipi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í gærmorgun og óskaði eftir aðstoð varðskipts vegna vélarbilunar. Landhelgisgæslan greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Þar segir að skipið hafi verið statt um sextán sjómílur vestur af Látrabjargi þegar óskað var eftir aðstoð en stuttu síðar var kominn upp minniháttar leki um borð sem dælur skipsins réðu við. Varðskipið Þór var þá statt við Bíldudal og lagði þegar af stað.

Áhöfn Þórs var skjót á vettvang þar sem línum var skotið á milli skipanna. Að því búnu var togskipið dregið til Reykjavíkur þangað sem skipin komu um hádegisbil í dag.

Að neðan má sjá myndskeið af störfum áhafnarinnar um borð.

„Þetta gekk heilt yfir mjög vel,“ „Það var gott að Þór hafi verið mjög nálægt þegar útkallið barst og var kominn um fimm klukkutímum síðar sem er ansi gott. Flutningurinn til Reykjavíkur gekk líka vel.“

Varðskip gæslunnar hafa haft fjölmörg verkefni upp á síðkastið.

„Það er kominn mánuður síðan að Þór dróg síðast skip en engu að síður eru mörg önnur verkefni sem falla til. Það hefur verið töluvert um útköll á þyrlunum okkar, bæði vegna veikinda og slysa, eins og gengur,“ segir hann. „Þetta er samt bara nokkuð hefðbundið miðað við árstíma.“