Varð­skipið Þór er á leið til Grinda­víkur og verður þar til taks ef fram­leiða þarf vara­afl fyrir hluta bæjarins. Enn er raf­magns­laust í stórum hluta bæjarins en bæjar­stjórinn Fannar Jóns­son segir að sam­kvæmt nýjustu upp­lýsingum frá HS Veitum standi vonir til að ná raf­magni inn í bæinn í kvöld.

„Það er kannski helmingur bæjarins sem enn er raf­magns­laus. En þeir hafa verið að setja inn spenni­stöðvar hverja af annarri til að ein­angra þessa bilun og þetta er allt að koma,“ segir Fannar í sam­tali við Frétta­blaðið. Í þeim töluðu orðum sá hann þegar raf­magnið kom aftur á á höfn bæjarins.

Fannar Jónsson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Mynd/Grindavíkurbær

Fannar segir ekki ljóst hvað olli biluninni, enn sé verið að reyna að stað­setja vandann. Um klukkan 13:40 sló öllu raf­magni út í Grinda­vík. Það var ekki fyrr en um fimm klukku­tímum síðar sem tókst að prófa inn­setningu á nokkrum stöðum og um kvöld­matar­leytið var raf­magn aftur komið á helming bæjarins.

„Þetta er graf­alvar­legt mál. Sér­stak­lega fyrir bæjar­fé­lagið okkar ein­mitt núna. Þetta er ekki síst slæmt í þessu á­standi sem hefur verið í gangi hjá okkur síðustu rúmu vikuna,“ segir Fannar. Síðast í gær­kvöldi reið stór jarð­skjálfti yfir bæinn, en hann átti upp­tök sín rétt við byggð og fannst því gríðar­lega vel, Grind­víkingum til lítillar á­nægju.

Fannar segir gott að vita af því að varð­skipið sé á leiðinni. Það er með öfluga dísil­stöð og land­tengingu og getur því skaffað bænum meiri­hluta þess raf­magns sem hann þarf nauð­syn­lega á að halda. „Þó mér sýnist allar horfur á að það þurfi ekki.“