Einar H. Valsson skipherra hefur dregið íslenska fánann að húni á varðskipinu Freyju sem siglir nú meðfram austurströnd Bretlands á leið til Íslands.

Áhöfn skipsins lagði af stað til Íslands frá Rotterdam í gær og er gert ráð fyrir að varðskipið verði komið til Siglufjarðar á öðrum tímanum á laugardag.

Þar munu tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar fylgja skipinu til hafnar og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytja ávarp. Freyja mun leysa varðskipið Tý af hólmi sem hefur staðið sína plikt í nærri hálfa öld.

Ríkisstjórnin samþykkti í mars að kaupa nýja varðskipið eftir Týr bilaði. Ekki var hægt að fá varahluti og var kostnaður á viðgerð metinn á 100 milljónir króna.

„Ekki er unnt að halda uppi viðeigandi öryggisstigi með aðeins einu varðskipi þótt öflugt sé og því lagði ég til og ríkisstjórnin samþykkti að hefjast þegar handa við kaup á nýju skipti sem mun koma í stað varðskipsins Týs sem hefur þjónað landsmönnum með glæsibrag í um hálfa öld,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um ákvörðunina.