Samkvæmt nýju frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra getur sá sem dreifir nektarmyndum eða myndböndum af öðrum í leyfisleysi átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi sé það gert af ásetningi en tveggja ára ef það er af gáleysi.

Samkvæmt Maríu Rún Bjarnadóttur lögfræðingi sem kom að gerð frumvarpsins er því ætlað að styrkja lagalegan rétt þeirra sem verða fyrir að brotum á kynferðislegri friðhelgi. Til þessa hafi sum mál fallið undir núverandi löggjöf um blygðunarsemi, önnur undir kynferðislega áreitni en of mörg hafi fallið milli skips og bryggju.

Miðað við frumvarpið er ekki aðeins sá sem upphaflega dreifði mynd eða efni ábyrgur heldur einnig aðrir sem kunna að dreifa því áfram. Geta því margir óskyldir aðilar verið brotlegir gagnvart sömu manneskju. Ásetningurinn skiptir líka miklu máli, það er hvort viðkomandi dreifi efni vísvitandi til ákveðinna aðila til að valda skaða.

„Ég man eftir máli þar sem verið var að senda myndir á vinnuveitanda, foreldra og fleiri nákomna til þess að valda sem mestu tjóni,“ segir María. „Það mál fékk ekki mikinn framgang í réttarkerfinu en þetta frumvarp myndi breyta því.“

María Rún Bjarnadóttir

Undir gáleysi getur fallið að sá sem send er nektar- eða kynlífsmynd áframsendi án þess að athuga hvort samþykki þeirra sem hún sýni liggi fyrir.

Annað sem hin nýja löggjöf mun taka á er hótun um dreifingu. En algengt er að þeir sem komist á einhvern hátt yfir nektarmyndir eða myndbönd kúgi viðkomandi með því að hóta að senda hana áfram. Fari þá fram á að þolandinn sendi fleiri myndir, borgi peninga, geri sér kynlífsgreiða eða eitthvað annað sem hann myndi annars ekki gera.

„Stundum eru hótanirnar notaðar eingöngu til að brjóta fólk niður,“ segir María. „Hin stafræna bylting hefur fært okkur margt gott en hún hefur einnig fært fólki tækifæri til að valda mun meiri skaða en áður.“

Einnig er tekið á fölsunum, sem minna hefur verið rætt um en er vaxandi vandamál. María segir að samhengið skipti öllu máli og að undir þetta heyri ekki samsettar myndir sem augljóslega séu grín. En nokkrar stúlkur hafi leitað til hennar vegna falsana.

„Þær hafa sett bikinímynd á Instagram en einhver þarna úti afritað hana, notað Photoshop til að fjarlægja bikiníið, sett myndina í dreifingu og skrifað við hana að þær séu að selja kynlíf,“ segir hún.

Algengt er að nektarmyndum sé dreift af Íslendingum undir dulnefnum á erlendum vefsíðum. María segir að sönnunarbyrðin geti áfram verið erfið og gagnaöflun flókin. En miðlar, sérstaklega þeir stóru, hafi tekið sér tak og orðið mjög samstarfsfúsir við lögregluyfirvöld í viðkomandi landi. „Þess vegna skiptir máli að lögreglan sé með skýrar refsiheimildir þegar hún leitar til þessara fyrirtækja.“