Reiði ríkir vegna myndbands sem spilað var í minningarathöfn um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar á Balí árið 2002. Í gærkvöldi voru liðin 20 ár frá sprengjuárásunum sem drógu 202 til dauða.
Nokkur hundruð manns komu saman á eyjunni í gærkvöldi til að minnast fórnarlambanna. Þegar klukkan var 23:05 á staðartíma var spilað tíu mínútna myndband þar sem var meðal annars sýnt frá ringulreiðinni sem átti sér stað eftir árásina árið 2002.
Slasaðir og örvæntingarfullir ferðamenn sáust í myndbandinu og þá voru birtar myndir af mönnunum sem voru dregnir til ábyrgðar vegna voðaverksins. Þá var búið að klippa myndbrot frá hryðjuverkaárásinni í New York árið 2001 inn í myndbandið.
Árásirnar á sínum tíma beindust gegn erlendum ferðamönnum á eyjunni en tvær sprengjur sprungu fyrir utan tvo skemmtistaði. Í hópi þeirra sem létust voru 88 Ástralar.
Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að viðstaddir hafi verið sárir og reiðir vegna myndbandsins sem sýnt var í gærkvöldi. Aðstandandandi eins sem lést segir að honum hafi hreinlega orðið óglatt. Þá segir Jeff Marshall, sem missti föður sinn, Bob Marshall, að aðstandendur hafi upplifað harmleikinn upp á nýtt þegar myndbandið var spilað.
„Við bjuggumst við því að það yrði mínútu þögn klukkan 23:05,“ segir Jan Laczynski í samtali við ástralska fjölmiðla en Jan missti fimm vini sína í árásunum. „En þess í stað voru afleiðingar árásarinnar sýndar á skjá.“
Í svari við fyrirspurn BBC kemur fram að utanríkisráðuneyti Ástralíu hafi ekki komið að skipulagningu minningarathafnarinnar í gærkvöldi. Ekki hafa borist viðbrögð frá yfirvöldum í Indónesíu.