Reiði ríkir vegna mynd­bands sem spilað var í minningar­at­höfn um fórnar­lömb hryðju­verka­á­rásarinnar á Balí árið 2002. Í gær­kvöldi voru liðin 20 ár frá sprengju­á­rásunum sem drógu 202 til dauða.

Nokkur hundruð manns komu saman á eyjunni í gær­kvöldi til að minnast fórnar­lambanna. Þegar klukkan var 23:05 á staðar­tíma var spilað tíu mínútna mynd­band þar sem var meðal annars sýnt frá ringul­reiðinni sem átti sér stað eftir á­rásina árið 2002.

Slasaðir og ör­væntingar­fullir ferða­menn sáust í mynd­bandinu og þá voru birtar myndir af mönnunum sem voru dregnir til á­byrgðar vegna voða­verksins. Þá var búið að klippa mynd­brot frá hryðju­verka­á­rásinni í New York árið 2001 inn í mynd­bandið.

Á­rásirnar á sínum tíma beindust gegn er­lendum ferða­mönnum á eyjunni en tvær sprengjur sprungu fyrir utan tvo skemmti­staði. Í hópi þeirra sem létust voru 88 Ástralar.

Breska ríkis­út­varpið, BBC, greinir frá því að við­staddir hafi verið sárir og reiðir vegna mynd­bandsins sem sýnt var í gær­kvöldi. Að­standandandi eins sem lést segir að honum hafi hrein­lega orðið ó­glatt. Þá segir Jeff Mars­hall, sem missti föður sinn, Bob Mars­hall, að að­stand­endur hafi upp­lifað harm­leikinn upp á nýtt þegar mynd­bandið var spilað.

„Við bjuggumst við því að það yrði mínútu þögn klukkan 23:05,“ segir Jan Laczynski í sam­tali við ástralska fjöl­miðla en Jan missti fimm vini sína í á­rásunum. „En þess í stað voru af­leiðingar á­rásarinnar sýndar á skjá.“

Í svari við fyrir­spurn BBC kemur fram að utan­ríkis­ráðu­neyti Ástralíu hafi ekki komið að skipu­lagningu minningar­at­hafnarinnar í gær­kvöldi. Ekki hafa borist við­brögð frá yfir­völdum í Indónesíu.