Þorvaldur S. Helgason
thorvaldur@frettabladid.is
Föstudagur 2. september 2022
22.45 GMT

Karl Ágúst Úlfs­son er lands­mönnum vel kunnur fyrir hlut­verk sín í leik­ritum, kvik­myndum og sjón­varps­þáttum á borð við Harry og Heimi, Spaug­stofuna og Nýtt líf. Hann hefur alla tíð unnið jöfnum höndum við skriftir og sviðs­listir en hyggst nú kveðja leik­sviðið til að ein­blína á orðsins list.

„Ég er búinn að starfa við sviðs­listir og leik­list í rúm­lega fjöru­tíu ár. Ég fór að velta því fyrir mér fyrir nokkrum árum hvort ég ætti að gera eitt­hvað af þessu til­efni. Svo dundu nú á okkur ein­hvers konar hörmungar í gegnum þennan blessaða heims­far­aldur og þá settist ég niður og fór að hugsa mjög al­var­lega út í þennan feril sem ég á að baki og komst eigin­lega að þeirri niður­stöðu að ég væri búinn að gera nánast allt sem mig langaði að gera. Mér fannst þá bara á­stæða til þess að kveðja, mjög sáttur,“ segir hann.

Fjöl­skyldu­sam­starfið gengur vel

Karl Ágúst samdi verkið Fíflið, sem verður frum­sýnt í Tjarnar­bíói í dag, sem eins konar kveðju­bréf sitt til leik­sviðsins. Með Karli í verkinu leika sonur hans Ey­vindur Karls­son og með leik­stjórn fer kona hans Ágústa Skúla­dóttir. Karl segir fjöl­skyldunni ganga einkar vel að vinna saman en hann hefur áður gert sýningar með þeim báðum.

„Okkur gengur mjög vel að vinna saman, þetta er oft bara spurning um að vera heiðar­legur og hrein­skilinn. Ég treysti til dæmis Ágústu mjög vel til að segja mér eins og henni finnst og vera heiðar­leg. Það er ekkert alltaf auð­velt, en það skilar sér alltaf á endanum. Þó mann setji hljóðan af og til þá er niður­staðan alltaf sú að ég kemst að því að hún hefur hár­rétt fyrir sér.“

Feðgarnir Karl Ágúst og Eyvindur leika á móti hvor öðrum í sýningunni Fíflinu. Kona Karls, Ágústa Skúladóttir, sér um leikstjórn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vildi ekki verða bitur

Karl Ágúst út­skrifaðist úr Leik­listar­skóla Ís­lands árið 1981 og varð fljót­lega fastur gestur á fjölum ís­lenskra at­vinnu­leik­húsa. Hann segir það hafa verið stór­feng­legt tæki­færi að fá sem ungur maður að kynnast mörgum af þeim leikurum sem hann hafði litið upp til frá unga aldri.

„Þegar ég var búinn að starfa í fá­ein ár í ís­lensku at­vinnu­leik­húsi þá fór ég reyndar að furða mig á því hvað margt af þessu fólki var biturt og ó­sátt við ferilinn sinn og reitt innan í sér þótt það brosti mikið út á við. Jafn­vel leikarar sem höfðu átt glæsi­legt ævi­starf sem ég hefði ekki haldið að væri nokkur á­stæða önnur til en að vera stoltur af. Þá fór ég mjög fljót­lega að hugsa: „Ég ætla ekki að lenda þarna.“ Núna í Co­vid-far­aldrinum þegar ég fór að setjast niður og fara yfir það sem ég hef gert þá var ég um leið mjög þakk­látur fyrir að vera ekki kominn á þennan stað.“


Þegar ég var búinn að starfa í fá­ein ár í ís­lensku at­vinnu­leik­húsi þá fór ég reyndar að furða mig á því hvað margt af þessu fólki var biturt og ó­sátt við ferilinn sinn og reitt innan í sér þótt það brosti mikið út á við.


Lér konungur varð kveikja

Í fyrra fagnaði Karl Ágúst fjöru­tíu ára út­skriftar­af­mæli sínu úr Leik­listar­skólanum en í ár fagnar hann öðrum tíma­mótum því nú eru 45 ár frá því hann steig fyrst á svið í ís­lensku at­vinnu­leik­húsi í upp­setningu Þjóð­leik­hússins á Lé konungi 1977.

„Þar var ég statisti og reyndar að­eins meira en það vegna þess að ég var líka tón­listar­maður og öll tón­list í þeirri sýningu var spunnin af mér ýmist á trompet eða slag­verk. Þannig að þetta var að­eins stærra en her­maður þrjú frá vinstri. Þarna kynntist ég mörgum af flottustu leikurum þess tíma, fólki sem ég þekkti úr fjar­lægð og fannst of­boðs­lega merki­legt að hitta í ná­vígi,“ segir Karl Ágúst.

Að hans sögn varð þessi reynsla á­kveðin frum­kveikja fyrir verkið Fíflið því þar upp­götvaði hann fyrst sam­band konungsins og hirð­fíflsins.

„Eitt af því sem gerist þegar ég byrja að skrifa verkið um fíflið er að fífl Lés konungs byrjar að læðast inn í það. Það verður að ein­hvers konar rauðum þræði í sýningunni þar sem Lér og fíflið eiga orða­skipti. Í ein­hverri merkingu lokast þessi stóri hringur á þessum enda­punkti.“

Karl segir fíflið vera í senn heimspeking, samfélagsrýni og gagnrýnanda valdsins.
Mynd/María Björt

Fíflið bæði fyndið og sorg­legt

Eins og áður sagði stígur Karl Ágúst á svið í Fíflinu á­samt syni sínum Ey­vindi og saman endur­spegla feðgarnir hið klassíska sam­band konungsins og hirð­fíflsins.

„Ég leik fíflið og hann styður mig mjög dyggi­lega sem mót­leikari, leikur oft hlut­verk konungsins, vegna þess að stór partur af þessari hug­mynd á bak við verkið er ein­mitt sam­band fíflsins og vald­hafans. Ég held ég leiki ein fimm­tán fífl í þessu verki þannig að ég fer bæði vítt og breitt um leik­bók­mennta­söguna og mann­kyns­söguna og skoða svo­lítið hlut­verk hirð­fífla í mis­munandi heims­álfum og á mis­munandi tímum,“ segir hann.

Er þetta kómísk eða tragísk sýning?

„Það er nú það, fíflið er bæði fyndið og svo­lítið sorg­legt á köflum. Fyrir utan það að vera heim­spekingur, sam­fé­lags­rýnir og gagn­rýnandi valdsins, sá sem bendir á það að kóngurinn er líka hlægi­legur, mann­legur og þarf á því að halda að það sé hlegið að honum.“


Þetta varð svona bæði með­vituð á­kvörðun og ó­með­vituð, ég ein­hvern veginn lenti í því að verða, í ein­hverri merkingu, hirð­fífl ís­lenska valda­kerfisins.


Tengir sjálfur við fíflið

Karl Ágúst viður­kennir fús­lega að hann tengi sjálfur við fífl og hirð­fífl enda hafi það verið helsta á­stæða þess að hann á­kvað að setja upp þessa sýningu en ekki ein­hverja aðra.

„Á mínum ferli þá hef ég oft gegnt þessu hlut­verki, verið sá sem gagn­rýnir stjórn­völd, tíðar­andann, þjóðar­karakterinn og það fólk sem er mest á­berandi í sam­fé­laginu hverju sinni. Þetta varð svona bæði með­vituð á­kvörðun og ó­með­vituð, ég ein­hvern veginn lenti í því að verða, í ein­hverri merkingu, hirð­fífl ís­lenska valda­kerfisins,“ segir hann.

En þótt fíflinu leyfist vissu­lega að gagn­rýna vald­hafana þá getur það fengið það í bakið síðar meir. Karl segist hafa fengið að upp­lifa það á eigin skinni: „Fíflið getur alveg komist upp á kant við konunginn, getur lent í alls konar hremmingum fyrir það ein­mitt að reyna að vera fyndið á kostnað vald­hafans. Þannig var þetta líka á mínum ferli.“

Karl Ágúst ætlar snúa sér að skriftum að fullum þunga og segir ærin verkefni vera framundan.
Fréttablaðið/Anton Brink

Lentu upp á kant við vald­hafa

Næst liggur að nefna Spaug­stofuna í tengslum við fíflið en Karl viður­kennir fús­lega að þeir fé­lagar, Örn, Pálmi, Rand­ver og Sigurður, hafi gegnt því hlut­verki árum saman.

„Ég hef skil­greint okkur þannig í mörg ár. Það var okkar hlut­verk að snúa út úr því sem var efst á baugi, vekja at­hygli og draga fram í dags­ljósið hluti sem jafn­vel flokkast undir spillingu, ó­eðli­lega fram­komu gagn­vart þeim sem minna mega sín, ó­eðli­lega valda­stöðu þeirra sem eru sterkir og eiga nóg af peningum,“ segir Karl Ágúst.

Spaug­stofu­menn lentu sjálfir í­trekað upp á kant við yfir­völd og valda­mikla aðila í þjóð­fé­laginu en eitt frægasta dæmið er lík­lega þegar biskup Ís­lands, Ólafur Skúla­son, kærði þá fyrir guð­last eftir um­deildan páska­þátt Spaug­stofunnar 1997.

„Við vorum kærðir fyrir guð­last, við vorum kærðir fyrir klám, við fengum á okkur hótanir um lög­bann og vorum sakaðir um of­sóknir á á­kveðnu fólki í valda­kerfinu. Það voru menn sem reyndu bók­staf­lega að fá þættina tekna af dag­skrá og beittu á­hrifum sínum til þess, sem við bara fréttum utan frá, en það heppnaðist ekki,“ segir Karl Ágúst.


Við vorum kærðir fyrir guð­last, við vorum kærðir fyrir klám, við fengum á okkur hótanir um lög­bann og vorum sakaðir um of­sóknir á á­kveðnu fólki í valda­kerfinu.


Tók sjálfan sig mjög al­var­lega

Þótt Karl Ágúst sé þekktastur sem gaman­leikari þver­tekur hann fyrir að það hafi verið með­vituð á­kvörðun að fara út í grínið.

„Ég tók sjálfan mig ofsa­lega al­var­lega sem lista­mann þegar ég var ný­út­skrifaður. Ég skil það ekki alveg þegar ég hugsa til þess í dag hvað ég hafði ó­bilandi sjálfs­traust og fannst ég geta allt, sem ég auð­vitað gat ekki. Kannski hefði ég varla gert helminginn af því sem ég hef gert ef ég hefði ekki haft þessa trú,“ segir hann.

Fyrsta vís­bendingin að því sem verða skyldi kom árið 1982 þegar Karl lék í upp­færslu Al­þýðu­leik­hússins á verki Guð­mundar Steins­sonar Þjóð­há­tíð. Þá komst gagn­rýnandi Morgun­blaðsins svo að orði: „Karl Ágúst sýnir það hér að í honum býr kómíker.“

„Þetta var það fyrsta sem ég hafði heyrt eða séð um það að ég væri gaman­leikari í ein­hverri merkingu. En svo gerist þetta náttúr­lega mjög fljót­lega,“ segir Karl Ágúst.

Skömmu áður hafði Karl fengið lítil hlut­verk í tveimur bíó­myndum, annars vegar Út­laganum eftir Ágúst Guð­munds­son þar sem hann lék In­gjalds­fíflið, og hins vegar í Jóni Oddi og Jóni Bjarna eftir Þráin Bertels­son þar sem hann lék sund­laugar­vörðinn. Bæði hlut­verk vöktu at­hygli og í kjöl­farið byrjaði boltinn að rúlla.

„Þar byrjaði sam­starf okkar Þráins, þar hittumst við í fyrsta skipti. Þá ein­hvern veginn blasti þessi braut svona við mér og það varð fram­hald á henni án þess að ég endi­lega veldi það. Ég fæ náttúr­lega annað aðal­hlut­verkið í Nýju lífi sem verður gríðar­lega vin­sæl mynd, slær í gegn og gengur í bíó lengur en nokkurn mann hafði órað fyrir. Svo bara hver myndin á fætur annarri,“ segir Karl Ágúst.

Sigurður Sigurjónsson, Randver Þorláksson, Pálmi Gestsson, Örn Árnason og Karl Ágúst Úlfsson framleiddu hundruð þætti af Spaugstofunni á þremur áratugum.
Mynd/RÚV

Upp­hafið að Spaug­stofunni

Skömmu eftir að Karl Ágúst lék í Löggu­lífi 1985, síðustu myndinni í þrí­leik þeirra Þráins Bertels­sonar og Eggerts Þor­leifs­sonar, varð svo til fyrsti vísirinn að því verk­efni sem hann er þekktastur fyrir, Spaug­stofunni. Hann kveðst ekki hafa þekkt til­vonandi kollega sína mikið fyrir en kannaðist við þá úr Leik­listar­skólanum og bransanum.

„Þegar ég er í miðjum tökum á Löggu­lífi þá hringir þá­verandi dag­skrár­stjóri RÚV sjón­varps í mig og spyr hvort ég sé til í að taka að mér Ára­móta­skaupið. Ég náttúr­lega jafn bilaður og ég var og með þessa ofur­trú á sjálfum mér segi bara já við því og hélt ég væri ráðinn og myndi skrifa og leik­stýra Ára­móta­skaupinu án þess að hafa nokkurn tíma komið ná­lægt slíkri vinnu, korn­ungur maður og bara rétt skriðinn úr skóla.“

Skömmu síðar urðu svo dag­skrár­stjóra­skipti á RÚV og Hrafn Gunn­laugs­son tók við starfinu. Að sögn Karls sá Hrafn strax að það var ekkert vit í því að ráða svo ó­reyndan mann til að stýra skaupinu og fékk hann því Sigurð Sigur­jóns­son sem leik­stjóra í stað Karls, en Sigurður hafði þá þegar tekið þátt í fjöl­mörgum Ára­móta­skaupum. Sigurður hafði svo sam­band við Karl og bauð honum að gerast partur af höfunda­t­eyminu.

„Ég varð auð­vitað alveg grjót­fúll í smá­stund en fljótur að jafna mig á því og þáði það. Þá varð til þessi hópur; ég, Siggi, Örn Árna­son, Rand­ver Þor­láks­son og Laddi. Við byrjuðum að vinna saman og vinnan var alveg ó­heyri­lega skemmti­leg. Við skemmtum okkur öllum stundum þótt við værum meira og minna að vinna fram á nætur og stundum á mjög ó­heil­brigðum tíma. Fljót­lega þegar fór að nálgast upp­tökur og út­sendingu á skaupinu var hópurinn farinn að kalla sig Spaug­stofuna. Þess vegna lít ég þannig á að Spaug­stofan sé stofnuð í kringum Ára­­­móta­s­kaupið 1985,“ segir Karl Ágúst.

Árið eftir var Karl svo ráðinn leik­stjóri Ára­móta­skaupsins 1986 og sam­hliða því náði hann að selja Hrafni Gunn­laugs­syni þá hug­mynd að sami hópur myndi gera fjóra stutta grín­þætti sam­hliða undir nafninu Spaug­stofan. Hrafn tók vel í hug­myndina og þættirnir voru gerðir og sendir út 1987.


Ég tók sjálfan mig ofsa­lega al­var­lega sem lista­mann þegar ég var ný­út­skrifaður.


Hafnað af Stöð 2

Nokkrum árum síðar tóku fé­lagarnir svo aftur upp þráðinn en í milli­tíðinni höfðu þeir Karl Ágúst, Örn Árna og Siggi Sigur­jóns verið með út­varps­þætti á RÚV sem hétu Sama og þegið, þar sem þeir fóru yfir fréttir vikunnar í gaman­sömum stíl. Fé­lagarnir fengu þá hug­mynd að gera sams konar þætti fyrir sjón­varp sem þeir kynntu fyrir Stöð 2 og var hug­myndinni tekið vel fyrst um sinn.

„Síðan erum við mættir upp á Stöð 2 til þess að skrifa undir samning. Samningurinn er til­búinn og það eina sem vantar á hann er nafnið á þættinum. Við vorum með hug­mynd að nafninu Imba­kassinn, það þótti svona ekki nógu já­kvætt og ekki hvetjandi til á­horfs. Þannig að við erum beðnir um að hugsa þetta að­eins betur og gefum okkur korter, tuttugu mínútur til að pæla í þessu. Við sitjum og spjöllum og á sama tíma er dag­skrár­stjórinn kallaður út úr fundar­her­berginu. Hann er í burtu í nokkrar mínútur og þegar hann kemur inn aftur segir hann: „Strákar, það er búið að blása þetta af.““

Karl Ágúst segir þetta hafa komið þeim í opna skjöldu enda sátu þeir hrein­lega með pennana í höndunum og áttu bara eftir að skrifa undir.

„Þannig að við fórum svona heldur þung­búnir út af þessum fundi og héldum bara á­fram okkar dag­lega basli. Svo leið lík­lega eitt ár og þá vorum við í ein­hverjum stórum peninga­legum vand­ræðum. Þá vorum við farnir að leigja vinnu­hús­næði á­samt Rand­ver og Pálma. Það þurfti að borga leigu og peningar lágu ekkert alltaf á lausu. Á endanum fórum við á fund með Hrafni Gunn­laugs­syni, dag­skrár­stjóra RÚV, og buðum honum þessa sömu hug­mynd. Hann tók við­bragð og sagði: „Þetta er skemmti­legt, ég skal láta ykkur hafa fjóra þætti og ef þeir heppnast vel skulum við skoða hvort það verði fram­hald.“ Við gerðum fjóra þætti á fjórum vikum og svo var ekki hægt að stoppa.“

Karl og Eyvindur bregða sér í ýmis hlutverk úr bókmenntasögunni og mannkynssögunni í Fíflinu.
Mynd/Eddi Jóns

Á­kvörðun RÚV kom á ó­vart

Spaug­stofan varð svo eins og allir þekkja einn vin­sælasti grín­þáttur Ís­lands og var á dag­skrá RÚV með hléum til 2010 þegar þeir fé­lagar færðu sig yfir á Stöð 2 þar sem þeir voru sýndir til 2014. Árið 2015 fögnuðu Spaug­stofu­menn þrjá­tíu ára starfs­af­mæli sínu með kveðju­sýningunni Yfir til þín í Þjóð­leik­húsinu. Alls voru 472 þættir fram­leiddir af Spaug­stofunni á yfir þrjá­tíu árum.

„Það kom mjög mörgum á ó­vart að RÚV skyldi taka þessa á­kvörðun. Þeir höfðu að vísu aldrei viljað á­kveða neitt fram í tímann. Þeir vildu alltaf sjá til, þannig að undir vorið þegar vetrar­dag­skránni var að ljúka þá spurðum við alltaf hvort þeir ætluðu að hafa okkur aftur næsta vetur. Við fengum aldrei svör við því nema: „Við skulum at­huga málin.“ Svo fengum við ekki að vita þetta fyrr en bara kannski mánuði áður en við áttum að byrja að vinna. Fyrir vikið var ég aldrei fast­ráðinn neins staðar og hafði í raun ekki trygga vinnu nema í mesta lagi níu mánuði fram í tímann,“ segir Karl Ágúst.

Haldið þið fé­lagarnir enn sam­bandi?

„Við reynum að drekka kaffi saman helst einu sinni í viku. Það heppnast ekki alltaf en oft. Það fer alltaf gríðar­lega vel á með okkur. Það er náttúr­lega mikið lán að þessi hópur skyldi vera svona í laginu, hann gat alveg verið allt öðru­vísi, en við náðum ofsa­lega vel saman. Við vorum ekkert alltaf sam­mála en það varð samt aldrei til þess að við gætum ekki átt eðli­leg og heil­brigð sam­skipti og skilað öllum verkum þannig að við værum sáttir við.“


Það kom mjög mörgum á ó­vart að RÚV skyldi taka þessa á­kvörðun. Þeir höfðu að vísu aldrei viljað á­kveða neitt fram í tímann.


Vill votta leik­húsinu virðingu

Spurður um hvað taki við nú þegar hann hyggst kveðja leik­sviðið segist Karl ætla að fara á fullt í skrifin. Hann hefur alla tíð sinnt skrifum og þýðingum sam­hliða leik­listinni og þýddi til að mynda Hobbitann eftir J.R.R. Tolkien á­samt föður sínum Úlfi Ragnars­syni 1978. Karl hefur auk þess gegnt stöðu formanns Rit­höfunda­sam­bands Ís­lands frá árinu 2018.

„Ég er náttúr­lega búinn að vera höfundur jafn lengi og leikari og jafn­vel enn lengur. Höfundurinn hefur oft þurft að víkja fyrir leik­hús­manninum því það eru hlutir sem heimta al­gjöran for­gang. En ég hef hug á að gefa rit­höfundinum fullt svig­rúm og fara að sinna hans störfum ó­truflað,“ segir hann.

Hvað er svo næst á döfinni?

„Það sem gerist næst er það að við Ágústa erum að fara að vinna í Þjóð­leik­húsinu sýninguna Hvað sem þið viljið eftir Shakespeare þar sem ég geri nýja þýðingu og við gerum saman nýja leik­gerð. En svo á ég bara svo margar skúffur af hand­ritum sem ég hef ýmist byrjað á og sum þeirra jafn­vel full­skrifað en aldrei komið frá mér. Nú þarf ég að fara að opna þessar skúffur og for­gangs­raða ein­hvern veginn. Það er nóg af verk­efnum fram undan.“

En þótt Karl Ágúst ætli að kveðja sviðið sem leikari segist hann ekki ætla að segja skilið við leik­húsið fyrir fullt og allt: „Ég er ekkert endi­lega að segja skilið við leik­húsið en ég vil votta því þessa virðingu mína og ég vil enda leikara­ferilinn minn á við­eig­andi hátt og á þann hátt sem ég kýs sjálfur.“

Athugasemdir