Jónatan Sævarsson lenti í því ömurlega atviki í gær að ráðist var á hann þegar hann var á leið í útför föður síns. Maðurinn sem réðst á Jónatan taldi hann hafa svínað fyrir sig í umferðinni. Hann sló Jónatan í andlitið af afli svo hann lá í götunni.

Sonurinn í hinu framsætinu á meðan

Fréttablaðið náði tali af móður Jónatans, Hólmfríði Bjarnadóttur, í kvöld en hann er búsettur í Noregi og flaug aftur heim í morgun. Hann var hér á landinu til að vera viðstaddur útför föður síns. „Þetta var á milli tólf og eitt. Kistulagningin er rétt fyrir tólf og hann fer með strákinn sinn smávegis á rúntinn,“ segir Hólmfríður.

Jónatan var að fara út úr hringtorgi þegar ökumaður sem telur að hann hafi svínað á sér byrjar að flauta á hann. Hann hægði þá á sér og stoppaði bílinn en þá æddi maðurinn út úr bílnum, reif upp hurðina á bíl Jónatans og sló hann af afli í andlitið svo Jónatan lá á götunni. Sonur Jónatans, sem er á fermingaraldri sat við hliðina á föður sínum í hinu framsætinu.

Sem betur fer átti árásin sér stað fyrir framan kaffistofuglugga lögreglunnar á svæðinu og stukku lögreglumenn strax út og stöðvuðu manninn. Hann var færður í handjárn en sleppt að lokinni skýrslutöku, vegna þess að ekki var talið tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum.

„Við hin erum öll í safnaðarheimilinu, við hliðina á Hafnarfjarðarkirkju, og erum að bíða eftir því að gestirnir komi í kirkju. Þá hringir strákurinn og segir það hafi verið ráðist á pabba sinn. Og við náttúrulega fáum þarna ákveðið áfall eða þannig,“ segir Hólmfríður. Hún segir atburðarásina í kjölfarið vera í dálítilli móðu en þær fréttir hafi borist að Jónatan væri á leiðinni í útförina þrátt fyrir atvikið.

Með servéttur í nefinu í blóðugri skyrtu

„Hann kemur svo í útförina rétt áður en hún á að hefjast með fullt af servéttum í nefinu og blóð á skyrtunni og snarast þarna inn á einhverja snyrtingu og þrífur sig aðeins,“ heldur hún áfram. Útförin gekk svo truflunarlaust fyrir sig og hún kveðst hafa náð að kveðja eiginmann sinn í friði.

„Sem betur fer, ég veit það allavega með mig, að þá náði þessi gaur ekki að slá mig út af laginu,“ útskýrir hún. „Því ég var náttúrulega að fara að fylgja manninum mínum síðasta spölinn og maður vill nú fá að gera það í friði.“

Jónatan fór svo beint eftir erfidrykkju föður síns og kærði árásina. Hann fór einnig á slysavarðstofuna til að láta athuga meiðslin og fá áverkavottorð en að sögn Hólmfríðar gátu læknarnir ekki sagt til um hvort hann væri nefbrotinn, það sæist ekki fyrir bólgunni sem var gríðarleg. Hún heyrði þá í syni sínum í dag og segir að honum líði þokkalega.

„Á hádegi á þriðjudegi þá á maður ekki von á svona. Ég hefði skilið þetta ef þetta hefði verið laugardagskvöld,“ segir Hólmfríður. „Þetta setti daginn í uppnám fyrir okkur. En sem betur fer slapp þetta betur en leit út í fyrstu og árásarmaðurinn verður kærður og allt það.“