„Er nokkuð annað en uppkosning ì boði í NV þegar ekki er hægt ađ sanna að ekki hafi verið átt viđ kjörgögn milli talninga sem lögreglurannsókn hefur sýnt fram á að meðferðkjörgagna hafi veriđ brot á kosningalögum?“
Þetta segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrverandi þingmaður og nú varaþingmaður Vinstri grænna í stöðuuppfærslu á Facebook. Hún segir framkvæmd kosninga þurfi að vera hafna yfir allan vafa, af virðingu viđ lýðræðið.
„Er nokkuð annað en uppkosning ì boði í NV þegar ekki er hægt ađ sanna að ekki hafi verið átt viđ kjörgögn milli talninga?“
Í aðdraganda kosninganna sem fram fóru 25. september, tapaði Lilja oddvitasæti sínu í kjördæminu fyrir Bjarna Jónssyni. Hann leiddi svo lista flokksins í kjördæminu þar sem flokkurinn fékk aðeins einn mann kjörinn og Lilja datt því út af þingi.
Verði kosið á ný í kjördæminu gæti Lilja komist aftur á þing, en til að svo verði þarf flokkurinn að gefa verulega í.
Fréttablaðið greindi nýverið frá því að stjórnarflokkarnir séu ekki samstíga í afstöðu sinni til talningarmálsins og að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra sé mjög beggja blands í afstöðu sinni og hafi talað mjög fyrir uppkosningu í undirbúningsnefnd þingsins.
Alþingi kemur saman á þriðjudaginn og þá verða niðurstöður nefndarinnar kynntar. Þingið gengur svo til atkvæða um tillögur nefndarinnar á fimmtudaginn.
Talið er líklegt að þingmenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins muni greiða atkvæði með staðfestingu kjörbréfa á grundvelli síðari talningar í Norðvesturkjördæmi.
Samfylking, Píratar, Viðreisn og mögulega Vinstri græn, vilji ekki staðfesta kjörbréf þeirra sem náðu kjöri vegna niðurstöðunnar í Norðvesturkjördæmi.