Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum og sagt sig frá varaþingmennsku sinni, sem og öllum ábyrgðarstörfum innan flokksins.
Þetta kemur fram í bréfi hennar til stjórnar og framkvæmdarstjórnar flokksins. Þar gagnrýnir hún að nýliðum í flokknum sé gert of hátt undir höfði á framboðslistum flokksins. Jóhanna segist í samtali við Fréttablaðið ekkert hafa spáð í framboð fyrir annan flokk. „Ég veit bara að Samfylkingin er ekki flokkur sem mig langar að vera í lengur.“
Jóhanna Vigdís hefur látið mikið að sér kveða í innra starfi flokksins undanfarin ár. Hún hefur meðal annars farið fyrir vel sóttum fundum um menntamál og þá sat hún meðal annars á þingi um nokkurra mánaða skeið í fjarveru Ágústs Ólafs Ágústssonar, þegar hann tók sér hlé frá þingstörfum.
Í bréfi sínu segir hún afar ánægjulegt að sjá áhuga fólks á þátttöku í flokksstarfinu aukast. „Ég verð þó að viðurkenna að það eru mér vonbrigði að uppstillingarnefnd í Reykjavík kjósi að bjóða nýliðum, hæfu fólki sem sannarlega er meira en velkomið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir kosningar til Alþingis næsta haust,“ skrifar Jóhanna.
„Þetta eru ekki bara harkaleg skilaboð til mín persónulega heldur ekki síður til annarra í grasrót Samfylkingarinnar - sem hafa lagt ómælda uppbyggingarvinnu af mörkum undanfarin ár. Sannarlega er ég seinþreytt til vandræða, en þegar mér ofbýður þá geri ég eins og góð kona sagði um árið; kýs með fótunum.“
Bréf Jóhönnu Vigdísar í heild sinni:
Taugar mínar hafa lengi legið til Samfylkingarinnar, sem var ástæða þess að ég ákvað að leggja mitt af mörkum til að taka þátt í starfi flokksins þegar stemmingin fyrir honum var í algjöru lágmarkið árið 2016 - og fyrirséð var að mikið uppbyggingarstarf væri fyrir höndum.
Síðan hef ég meðal annars setið á Alþingi sem varaþingmaður og sinnt þar störfum í fjárlaganefnd, mótað nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í nefnd nýsköpunarráðherra, leitt öflugt málefnastarf menntamálanefndar Samfylkingarinnar, auk þess að sitja í stjórnum SffR og Kvennahreyfingarinnar, og framkvæmdastjórn flokksins.
Það var því afar ánægjulegt að sjá áhuga fólks á þátttöku í flokksstarfinu aukast, að einhverju leyti í takt við gott gengi í skoðanakönnunum.
Ég verð þó að viðurkenna að það eru mér vonbrigði að uppstillingarnefnd í Reykjavík kjósi að bjóða nýliðum, hæfu fólki sem sannarlega er meira en velkomið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir kosningar til Alþingis næsta haust.
Þetta eru ekki bara harkaleg skilaboð til mín persónulega heldur ekki síður til annarra í grasrót Samfylkingarinnar - sem hafa lagt ómælda uppbyggingarvinnu af mörkum undanfarin ár.
Sannarlega er ég seinþreytt til vandræða, en þegar mér ofbýður þá geri ég eins og góð kona sagði um árið; kýs með fótunum.
Ég virði niðurstöðu uppstillingarnefndar og vilja forystu flokksins. Um leið og ég þakka ykkur, vinum mínum og samferðafólki í Samfylkingunni, fyrir ánægjulegt samstarf undanfarin ár segi ég mig hér með frá varaþingmennsku, öllum ábyrgðarstörfum innan flokksins, og úr Samfylkingunni.
Það er hægt að finna kröftum sínum farveg með ýmsu móti og ég mun því beita mér fyrir þeim málefnum sem ég brenn fyrir; menntun og nýsköpun, á öðrum vettvangi.
Gangi ykkur sem allra best í ykkar störfum.