Jóhanna Vig­dís Guð­munds­dóttir, vara­þing­maður Sam­fylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum og sagt sig frá vara­þing­mennsku sinni, sem og öllum á­byrgðar­störfum innan flokksins.

Þetta kemur fram í bréfi hennar til stjórnar og framkvæmdarstjórnar flokksins. Þar gagn­rýnir hún að ný­liðum í flokknum sé gert of hátt undir höfði á fram­boðs­listum flokksins. Jóhanna segist í samtali við Fréttablaðið ekkert hafa spáð í framboð fyrir annan flokk. „Ég veit bara að Samfylkingin er ekki flokkur sem mig langar að vera í lengur.“

Jóhanna Vig­dís hefur látið mikið að sér kveða í innra starfi flokksins undan­farin ár. Hún hefur meðal annars farið fyrir vel sóttum fundum um mennta­mál og þá sat hún meðal annars á þingi um nokkurra mánaða skeið í fjar­veru Ágústs Ólafs Ágústs­sonar, þegar hann tók sér hlé frá þing­störfum.

Í bréfi sínu segir hún afar á­nægju­legt að sjá á­huga fólks á þátt­töku í flokks­starfinu aukast. „Ég verð þó að viður­kenna að það eru mér von­brigði að upp­stillingar­nefnd í Reykja­vík kjósi að bjóða ný­liðum, hæfu fólki sem sannar­lega er meira en vel­komið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykja­víkur­kjör­dæmunum fyrir kosningar til Al­þingis næsta haust,“ skrifar Jóhanna.

„Þetta eru ekki bara harka­leg skila­boð til mín per­sónu­lega heldur ekki síður til annarra í gras­rót Sam­fylkingarinnar - sem hafa lagt ó­mælda upp­byggingar­vinnu af mörkum undan­farin ár. Sannar­lega er ég sein­þreytt til vand­ræða, en þegar mér of­býður þá geri ég eins og góð kona sagði um árið; kýs með fótunum.“

Bréf Jóhönnu Vig­dísar í heild sinni:

Taugar mínar hafa lengi legið til Sam­fylkingarinnar, sem var á­stæða þess að ég á­kvað að leggja mitt af mörkum til að taka þátt í starfi flokksins þegar stemmingin fyrir honum var í al­gjöru lág­markið árið 2016 - og fyrir­séð var að mikið upp­byggingar­starf væri fyrir höndum.

Síðan hef ég meðal annars setið á Al­þingi sem vara­þing­maður og sinnt þar störfum í fjár­laga­nefnd, mótað ný­sköpunar­stefnu fyrir Ís­land í nefnd ný­sköpunar­ráð­herra, leitt öflugt mál­efna­starf mennta­mála­nefndar Sam­fylkingarinnar, auk þess að sitja í stjórnum SffR og Kvenna­hreyfingarinnar, og fram­kvæmda­stjórn flokksins.

Það var því afar á­nægju­legt að sjá á­huga fólks á þátt­töku í flokks­starfinu aukast, að ein­hverju leyti í takt við gott gengi í skoðana­könnunum.

Ég verð þó að viður­kenna að það eru mér von­brigði að upp­stillingar­nefnd í Reykja­vík kjósi að bjóða ný­liðum, hæfu fólki sem sannar­lega er meira en vel­komið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykja­víkur­kjör­dæmunum fyrir kosningar til Al­þingis næsta haust.

Þetta eru ekki bara harka­leg skila­boð til mín per­sónu­lega heldur ekki síður til annarra í gras­rót Sam­fylkingarinnar - sem hafa lagt ó­mælda upp­byggingar­vinnu af mörkum undan­farin ár.
Sannar­lega er ég sein­þreytt til vand­ræða, en þegar mér of­býður þá geri ég eins og góð kona sagði um árið; kýs með fótunum.

Ég virði niður­stöðu upp­stillingar­nefndar og vilja for­ystu flokksins. Um leið og ég þakka ykkur, vinum mínum og sam­ferða­fólki í Sam­fylkingunni, fyrir á­nægju­legt sam­starf undan­farin ár segi ég mig hér með frá vara­þing­mennsku, öllum á­byrgðar­störfum innan flokksins, og úr Sam­fylkingunni.

Það er hægt að finna kröftum sínum far­veg með ýmsu móti og ég mun því beita mér fyrir þeim mál­efnum sem ég brenn fyrir; menntun og ný­sköpun, á öðrum vett­vangi.
Gangi ykkur sem allra best í ykkar störfum.