Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, varar við því að fólk leggi of miklar vonir í hraðgreiningarpróf og að honum þyki ekki skynsamlegt að slaka á takmörkunum þegar staðan er eins og hún er.

„Þetta er á sama róli og við höfum verið á. Það eru sveiflur á milli daga en það er ekkert hægt að of­túlka það. Þetta er línu­legt,“ segir Þór­ólfur. Minnst 108 smit greindust í gær innan­lands. Af þeim voru 54 prósent í sótt­kví.

Spurður út í til­lögur fólks í tón­listar­bransanum að hækka fjölda­tak­mörk í 500 og notast við hrað­próf á við­burðum segir Þór­ólfur að von sé á leið­beiningum um notkun hrað­prófa en að al­mennt sé fólk að binda of miklar væntingar við hr­að­greiningar­próf.

„Bæði hvað varðar sótt­kví og fjölda­tak­mörk sýnist mér að fólk sé að binda of miklar væntingar við hrað­hreiningar­prófin. Ég bendi á að það er einn staður núna, eða sam­koma, þar sem að þess var krafist að flestir færu í hrað­próf en samt kom upp stórt smit þar,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að slík dæmi þekkist bæði hér­lendis og er­lendis.

„Það er nóg að bara tveir komist í gegn. Þetta er auð­vitað hjálp­legt til að minnka líkurnar á því og það er hægt að nota prófin á mis­munandi máta,“ segir Þór­ólfur og að þetta sé eitt af því sem að hann benti á í til­lögum sínum um fram­tíðar­skipu­lag sótt­varna­að­gerða.

Ekki tilefni til að slaka á núna

Hann segist hins vegar ekki sjá til­efni til að fara í 500 manna fjölda­tak­mörk.

„Ég hef sagt það áður að mér finnst ekki skyn­sam­legt að slaka á núna þegar við erum rétt að halda þessu í horfinu og spítalinn á limminu. Það væri ekki skyn­sam­legt að slaka á núna. Fyrst þurfum við að fækka smitum og minnka álag á spítalanum,“ segir Þór­ólfur.

Nauðsynlegt að bæta ónæmi þeirra sem fengu Janssen

Greint hefur verið frá þremur til­fellum um lömun í kjöl­far örvunar­skammta þeirra sem fengu Jans­sen. Þór­ólfur segir að til­kynningar berist um slíkt til Lyfja­stofnunar en það hafi verið, sem dæmi, and­lits­lömun til­kynnt sem auka­verkun hjá bæði AstraZene­ca og Pfizer.

„Það var mjög fá­títt og sjald­séð eins og aðrar al­var­legar auka­verkanir,“ segir Þór­ólfur.

Spurður hvort hann hafi sér­stök skila­boð til kvenna eða ungs fólks sem hefur verið boðað í slíkan örvunar­skammt segir Þór­ólfur að það sé aug­ljóst að það þurfi að bæta ó­næmi hjá þeim sem fengu Jans­sen.

„Af­leiðingarnar eru tíðari og al­var­legri en af­leiðingarnar eftir bólu­setninguna. Það þarf að skoða það í því ljósi, það er hvora á­hættuna fólk er til­búið að taka,“ segir Þór­ólfur.

Skoða mál fólks sem smitast erlendis

Greint var frá því í Frétta­blaðinu í vikunni eftir að inn­leiddar voru breytingar á landa­mærunum að það gæti orðið erfitt fyrir fólk að komast til Ís­lands sem að greinist með smit er­lendis og mælist já­kvætt lengi eftir að sýkingu er í raun lokið. Það fær því ekki nei­kvætt PCR próf sem er skil­yrði fyrir því að komast í flug.

„Þetta er þá fólk sem er búið að smitast og komið í gegnum veikindin en mælist já­kvætt í ein­hvern tíma eftir það. Það getur gerst. Það er verið að skoða það hvort að það sé hægt að fá mat með mót­efna­mælingum eða ein­hverju slíku,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að það verði ekki séð við öllu því það sé ekki hægt að minnka líkurnar á því að fá veiruna inn í landið og leyft fólki með já­kvætt próf að koma inn.

„Það skilar sér í meiri veiru en við erum að skoða hvernig er hægt að leysa þetta mál,“ segir Þór­ólfur.