Rafbyssur ættu að byrja sem tilraunaverkefni ef ekki er hægt að stöðva reglugerðarbreytingu, að sögn afbrotafræðings. Mjög sjaldan ástæða til að beita þeim, enda notkun þeirra hættuleg. Dómsmálaráðherra mun svara spurningum umboðsmanns Alþingis.
Ekki er ástæða til að lögreglan geri rafbyssur að staðalbúnaði. Hins vegar getur við ákveðnar kringumstæður verið gott að lögreglumenn beri þessi vopn.
Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við HÍ. Mikill styrr stendur nú um þær breytingar sem að óbreyttu verða að veruleika, þar sem íslenskir lögreglumenn hafa fengið heimild til að nota rafbyssur.
Á Alþingi hefur verið bent á fjölda dauðsfalla vegna notkunar þessara vopna. Þá hefur umboðsmaður Alþingis gert athugasemd við framgang málsins.
Umboðsmaður, Skúli Magnússon, hefur óskað eftir upplýsingum og skýringum frá dómsmálaráðherra og bendir á að samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands skuli halda ríkisstjórnarfundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Með hliðsjón af þessu og aðdraganda málsins, eins og hann hefur verið rakinn í fjölmiðlum, er ráðherra beðinn að svara ýmsum spurningum.
Fram hefur komið hjá forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, að málið hafi ekki verið formlega rætt innan ríkisstjórnarinnar. Reglur um eftirlit séu skilyrði áður en vopnunum verði beitt.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur sagt að hægt verði að koma í veg fyrir meiðsli á lögreglumönnum með notkun nýju vopnanna. Rafvopnin auki öryggi lögreglufólks umfram kylfur sem heimilt er að bera í dag.
Helgi Gunnlaugsson segir að mjög sjaldan sé þörf á rafbyssum.
„Þær eru varasamar, þessar byssur, það hefur margoft komið í ljós erlendis,“ segir Helgi. „En það á við um öll valdbeitingartæki ef þeim er misbeitt.“
Helgi segir að eins og lögreglan sé mönnuð í dag á Íslandi, margir ómenntaðir og ekki með mikla þjálfun að baki, sé varasamt að heimila notkun rafbyssa.
„Tilraun í Noregi sýndi litla notkun lögreglunnar á rafbyssum, óverulegar breytingar en samt var hægt að sjá að lögreglan taldi sig öruggari með þessi vopn.“
Alltaf er hætta á misbeitingu. Afleiðingarnar geta orðið mjög hættulegar að sögn Helga. Að mati hans er engin þörf á að lögreglan geri rafbyssur að staðalbúnaði hér á landi þótt við ákveðnar kringumstæður geti verið réttlætanlegt að lögreglumenn beri þessi vopn.
„Eftirlit er vitaskuld nauðsynlegt sem og skráning notkunar og áhrifa. Í raun ættu rafbyssur að byrja sem tilraunaverkefni ef ekki er hægt að stöðva þessa reglugerðarbreytingu,“ segir Helgi.
Hann segir að mörg skelfileg mál hafi komið upp í Evrópu síðustu ár þar sem vopnum eða ofbeldi er beitt og lögreglufólk sé skotið.
Það er áhugavert að lögreglan í Færeyjum ber skotvopn við dagleg skyldustörf en notar þau nánast aldrei,“ segir Helgi. Lögreglan í Færeyjum er dönsk og námið skipulagt af Dönum.
„Í þessari friðsældarparadís sem Færeyjar eru skiptir öllu að lögreglumennirnir eru vel þjálfaðir en hér á landi eru oft undirmannaðar vaktir, því miður,“ segir Helgi.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn Fréttablaðsins um athugasemdir umboðsmanns Alþingis í gær í gær á þann veg að hann myndi svara umboðsmanni. Ekki fengust nánari upplýsingar um hvernig ráðherra mun svara umboðsmanni.
