For­seti Íran, Hassan Rou­hani, hefur varað við því að von sé á fjórðu bylgju kóróna­veirufar­aldursins þar í landi en fjöldi til­fella hefur aukist tölu­vert síðustu daga á á­kveðnum svæðum. Borgir í Khuzestan í suð­vestur hluta landsins eru nú rauð í lita­kóðunar­kerfi Írana.

„Þetta er við­vörun fyrir okkur öll,“ sagði Rou­hani í sjón­varps­á­varpi sínu um málið þar sem hann sagði fjölda smita vera áhyggjuefni. „Þetta táknar byrjunina á ferð okkar að fjórðu bylgjunni. Við þurfum öll að vera á verði til að koma í veg fyrir þetta.“

Bakslag í baráttunni

Bólu­setningar eru nú hafnar í landinu með bólu­efni Rússa, Sput­nik V, en fyrstu skammtarnir voru gefnir í gær. Alls var um 100 þúsund skammta að ræða en samið hefur verið um tvær milljónir skammta í heildina af Sput­nik V, auk þess sem að Íranir vinna nú að þróun eigin bólu­efnis.

Íranir eru nú með rúm­lega 1,5 milljón stað­fest til­felli smits og hafa tæp­lega 59 þúsund manns látist en rúm­lega 80 milljón manns búa í landinu.

Þrátt fyrir að Íran sé nú meðal þeirra landa sem eru með flest stað­fest til­felli á Mið-Austur­löndunum hefur far­aldurinn verið í á­kveðinni niður­sveiflu síðast­liðnar vikur. Ljóst er að um veru­legt bak­slag sé að ræða.