Kóróna­veirufar­aldurinn virðist á­fram vera í upp­sveiflu í Banda­ríkjunum en gær­dagurinn var einn sá versti þar í landi frá því að CO­VID-19 kom fyrst upp. Aldrei hafa fleiri dauðs­föll verið skráð á einum sólar­hring auk þess sem spítala­inn­lagnir hafa aldrei verið fleiri.

Sam­kvæmt upp­lýsingum á vef Johns Hop­kins há­skólans hafa nú tæp­lega 14 milljón manns greinst með veiruna og tæp­lega 274 þúsund látist. Að því er kemur fram í frétt New York Times greindust rétt tæp­lega 200 þúsund manns með veiruna í gær og voru að minnsta kosti 2.885 dauðs­föll skráð.

Auk fjölda nýrra smita og dauðs­falla vegna CO­VID-19 hefur inn­lögnum á spítala einnig fjölgað gífur­lega en í gær voru fleiri en 100 þúsund ein­staklingar inni­liggjandi á spítala í Banda­ríkjunum, rúm­lega helmingi fleiri en í upp­hafi mánaðar.

Heildarfjöldi dauðsfalla gæti orðið 450 þúsund

Robert Red­fi­eld, yfir­maður Sótt­varnar­mið­stöðvar Banda­ríkjanna, CDC, greindi frá því í gær að fram undan væru gífur­lega erfiðir tímar en hann spáði því að heildar­fjöldi dauðs­falla gæti náð 450 þúsund í febrúar. Til þess að koma í veg fyrir það þyrftu Banda­ríkja­menn að gera frekari ráð­stafanir.

„Raun­veru­leikinn er sá að desember, janúar og febrúar verða erfiðir tímar,“ sagði Red­fi­eld en hann sagðist hafa miklar á­hyggjur af stöðu mála, sér­stak­lega þegar kemur að dauðs­föllum. „Ég trúi því jafn­vel að þetta verði erfiðustu tímar í heil­brigðis­sögu þessarar þjóðar.“

Allir þurfi að taka þátt

Þá virtist Red­fi­eld gagn­rýna Donald Trump, sitjandi Banda­ríkja­for­seta, og Scott Atlas, fyrr­verandi ráð­gjafa for­setans þegar kemur að CO­VID-19, og við­brögð þeirra við far­aldrinum. Hann vísaði til þess að stjórn­völd hafi efast um árangur grímu­notkunar áður en að nú væri ekki tíminn fyrir slíkt.

Að sögn Red­fi­eld er það þó ekki ó­mögu­legt að ná tökum á far­aldrinum en til þess að að­gerðir beri árangur þurfi allir að standa saman. „Þetta mun ekki ganga ef að­eins helmingur okkar gerir það sem þarf að gera. Lík­legast ekki heldur ef þrír af fjórum gera það,“ sagði Red­fi­eld.

Aðrir sér­fræðingar hafa tekið undir með Red­fi­eld en fjöldi til­fella á viku í Banda­ríkjunum er nú meira en ein milljón og eru nú til­felli að koma upp víða í Banda­ríkjunum, ó­líkt fyrstu bylgjunni þegar flest til­felli voru bara í á­kveðnum ríkjum. Þá óttast margir að fjöldi inn­lagna á spítala að svo stöddu þýði að dauðs­föllum muni fjölga tölu­vert á næstunni.

Bíða í ofvæni eftir bóluefni

Eins og staðan er í dag hafa hátt í 65 milljón til­felli kóróna­veiru­smits verið stað­fest í heiminum auk þess sem tæp­lega 1,5 milljón manns hafa látist úr CO­VID-19. Lang­flest til­felli eru í Banda­ríkjunum en þar á eftir koma Ind­land og Brasilía.

Fjöl­margar þjóðir bíða nú í of­væni eftir komu bólu­efnis en Bretar voru fyrstir vest­rænna þjóða til að sam­þykkja bólu­efni við CO­VID-19, það er bólu­efni Pfizer og BioN­tech. Heil­brigðis­yfir­völd í Banda­ríkjunum hafa einnig verið að undir­búa sig fyrir slíkt sem og yfir­völd í Rúss­landi.

Þegar kemur að Evrópu er staðan þó önnur þar sem Lyfja­stofnun Evrópu á enn eftir að sam­þykkja bólu­efni sem hafa lofað góðu en gert er ráð fyrir að á­kvörðun verði tekin um Pfizer bólu­efnið fyrir lok mánaðar. Þá er einnig til skoðunar bólu­efni AstraZene­ca og bólu­efni Moderna en á­kvörðun verður tekin um þau í janúar.

Hátt í 65 milljón tilfelli hafa nú verið skráð á heimsvísu.
Skjáskot/John Hopkins háskólinn