Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og sáttasemjari í Júgóslavíustríðunum, varar við spennu við norðurheimskautið fyrir aðalfund Norðurslóðaráðsins. Hann fer fram í Reykjavík, með fjarfundarbúnaði, um miðjan nóvember næstkomandi.

„Norðurheimskautið verður sífellt mikilvægari vettvangur stórveldanna. Það gagnast okkur öllum að eiga í góðu samstarfi, ekki stríði,“ segir hann í grein sem var birt í ýmsum dagblöðum víða um heim.

Hlýnun loftslagsins gerist tvöfalt hraðar við pólana en annars staðar á jörðinni og því hafi skipaleiðir verið að opnast. Nefnir Bildt tvær leiðir sem mestu máli skipti, norðvesturleiðina við kanadísku eyjarnar og Norður-Íshafsleiðina, norðan við Rússland.

„Í sumar sigldi hið hundrað ára gamla skip Sedov Norður-Íshafsleiðina án þess að mæta nokkrum ís,“ segir Bildt. Bendir hann á að ísbrjóta þurfi enn á öðrum tíma ársins en þeim hefur einmitt verið að fjölga í flotum stórveldanna. Ljóst sé að skipaumferð sé að stóraukast á þessum slóðum, bæði vegna meiri umsvifa í Rússlandi og að flutningaleið milli Vesturlanda og Asíu sé að opnast, sem er nærri helmingi styttri en suðurleiðin í gegnum Indlandshaf og Súez-skurðinn.

Norðurskautsráðið, sem stofnað var árið 1996, hafi hingað til aðallega fengist við umhverfismál. En vegna þessara breytinga skipti vettvangurinn sífellt meira máli. Meðal annars hafi Kínverjar, Japanir, Indverjar og fleiri Asíuþjóðir fengið áheyrnarfulltrúa í ráðinu árið 2013.

Hafa beri í huga að Rússar muni taka við formennsku í ráðinu á næsta ári og leiða það í tvö ár. „Kreml hefur í áratug eytt miklum fjármunum í uppbyggingu á norðurslóðum, endurreist gömul, sovésk hernaðarmannvirki og byggt ný,“ segir Bildt. „Þessi hernaðarumsvif hafa kveikt í NATO, sem ætti þó að átta sig á því að þessi mannvirki ógna í raun engum, nema kannski ísbjörnum.“ Stórveldin ættu því að hætta að bítast um norðurslóðirnar og þess í stað byggja upp samkomulag um nýtingu þeirra.