Í færslu sem gengur um samfélagsmiðla lýsir faðir drengs því hvernig tveir unglingar hafi ráðist á son sinn og vin hans sem eru fjórtán ára og barið þá með kylfum og hnefum í Lindahverfinu í Kópavogi.

Að hans sögn þurftu drengirnir að þola þung högg og er sonur hans með áverka á enninu eftir árásina.

Faðir drengsins staðfesti að lögreglan hafi fengið tilkynningu um málið og hafi reynt að svipast eftir drengjunum sem talið er að séu nokkrum árum eldri.

Fyrir heppni hafi drengjunum tekist að hlaupa út á götu og stöðva bíl sem hafi reynst fæling fyrir árásarmennina sem flúðu á vespu.

Færsluna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Kvöldið.

Rétt um tíu í kvöld var 14 ára sonur minn og vinur hans á Hopp hjóli á leið úr bíó þegar ráðist var á þá af tveimur strákum á svipiðu reki (líklega aðeins eldri) sem voru saman á vespu. Árásarmennirnir (strákarnir) ýttu syni mínum og hans vini af hlaupahjólinu, drógu fram kylfu og slógu þá, fyrst með kylfu og svo með hnefunum. Þeir báðir þurftu að þola þung högg og sonur minn er með stóra kúlu á enninu eftir árásina.

Árásin átti sér stað á göngustíg við gatnamót Fífuhvammsvegar og Hlíðardalsvegar. Annar þeirra náði að hlaupa út á götu og stoppa rauðan bíl (takk fyrir að stoppa!) og við það flúðu árásarmennirnir (strákarnir) af vettvangi. Í þessum rauða bíl var líklega kona ásamt dóttur sinni.

Annar strákanna á vespunni var með aflitað hár og báðir voru klæddir í íþróttaföt. Þeir flúðu líklega ofar í hverfið eftir árásina en höfðu mjög líklega komið úr Snælandssjoppunni og elt þá þaðan.

Við kölluðum á lögregluna sem kom og tók skýrslu og er nú að svipast um eftir árásarmönnunum. Þetta er því orðið að lögreglumáli enda er það engan veginn ásættanlegt að ráðist sé á fólk í okkar hverfi né annars staðar.

Þið foreldrar sem tengið mögulega við lýsinguna á þessum strákum sem réðust á son minn og vin hans, takið alvarlegt samtal við son ykkar. Þetta er ekki í lagi.

Þeir sem hafa tengsl í aðrar hverfisgrúppur nálægt (Kórar, Salir, Breiðholt…) endilega deilið því það er mikilvægt að við tökum okkur saman um að þetta gerist ekki aftur. Við viljum öll öruggt hverfi fyrir börnin okkar og okkur sjálf.