Bandaríski doktorinn Peter Hotez sem meðal annars stýrir stofnun um þróun bóluefna segir það hafa verið mistök af hálfu Joe Biden Bandaríkjaforseta að lýsa því yfir að heimsfaraldri Covid-19 væri lokið. Hann segir of marga enn deyja úr veirunni þar vestanhafs.
Bandaríkjaforseti gaf frá sér umrædda yfirlýsingu í september síðastliðnum. Peter segir í samtali við breska blaðið The Guardian að forsetinn hafi þar hlaupið á sig og sent röng skilaboð til bandarísks almennings.
„Þetta er klárlega ekki búið. Það eru enn 200-300 manns að deyja á hverjum degi. Covid-19 er enn í þriðja eða fjórða sæti yfir dánarorsök í Bandaríkjunum,“ segir doktorinn.
Hann segir skilaboð forsetans hafa verið mistök þar sem erfitt sé nú að sannfæra bandarískan almenning um mikilvægi þess að mæta í örvunarbólusetningu vegna sjúkdómsins. Peter segir það vera það mikilvægasta sem fólk geti gert til þess að verja sig fyrir Covid.
Einungis 14,1 prósent Bandaríkjamanna yfir fimm ára aldri hafa fengið nýjustu örvunarbólusetninguna. Peter segir töluna í heimaríki sínu Texas vera enn lægri þar sem einungis um 7 prósent Texas búa hafa látið bólusetja sig nýlega.
Segir næstu bylgju á leiðinni
Peter hefur meðal annars verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna vegna þróunar á bóluefninu Corbevax gegn Covid-19 sem hann vann ásamt kollega sínum Dr. Maríu Elenu Bottazzi.
Vísindamennirnir þvertóku fyrir að fá einkaleyfi fyrir því svo fátækari lönd gætu fjölfaldað og framleitt bóluefnið. Peter segir næstu bylgju Covid smita á leiðinni.
„Næsta stóra bylgja af smitum er á leiðinni, sú fjórða. Ég get ekki sagt ykkur hvort hún komi á næsta ári eða eftir fimm eða tíu ár en hún er á leiðinni,“ segir vísindamaðurinn.
Hann segir Bandaríkin ekki í góðri stöðu á meðan fjöldi bólusettra sé eins lágur og raun ber vitni. „Antí-vaxxerarnir hafa sigrað að þessu leyti. Við erum enn að horfa upp á of mörg dauðsföll.“
Peter segir heiminn í ákveðinni biðstöðu núna. „Við eigum eftir að sjá hvað gerist með þessi nýju afbrigði,“ segir vísindamaðurinn sem spáir því að fjöldi smita muni aukast vestanhafs þegar líður á þennan vetur.