Banda­ríski doktorinn Peter Hot­ez sem meðal annars stýrir stofnun um þróun bólu­efna segir það hafa verið mis­tök af hálfu Joe Biden Banda­ríkja­for­seta að lýsa því yfir að heims­far­aldri Co­vid-19 væri lokið. Hann segir of marga enn deyja úr veirunni þar vestan­hafs.

Banda­ríkja­for­seti gaf frá sér um­rædda yfir­lýsingu í septem­ber síðast­liðnum. Peter segir í sam­tali við breska blaðið The Guar­dian að for­setinn hafi þar hlaupið á sig og sent röng skila­boð til banda­rísks al­mennings.

„Þetta er klár­lega ekki búið. Það eru enn 200-300 manns að deyja á hverjum degi. Co­vid-19 er enn í þriðja eða fjórða sæti yfir dánar­or­sök í Banda­ríkjunum,“ segir doktorinn.

Hann segir skila­boð for­setans hafa verið mis­tök þar sem erfitt sé nú að sann­færa banda­rískan al­menning um mikil­vægi þess að mæta í örvunar­bólu­setningu vegna sjúk­dómsins. Peter segir það vera það mikil­vægasta sem fólk geti gert til þess að verja sig fyrir Co­vid.

Einungis 14,1 prósent Banda­ríkja­manna yfir fimm ára aldri hafa fengið nýjustu örvunar­bólu­setninguna. Peter segir töluna í heima­ríki sínu Texas vera enn lægri þar sem einungis um 7 prósent Texas búa hafa látið bólu­setja sig ný­lega.

Segir næstu bylgju á leiðinni

Peter hefur meðal annars verið til­nefndur til Nóbels­verð­launa vegna þróunar á bólu­efninu Cor­be­vax gegn Co­vid-19 sem hann vann á­samt kollega sínum Dr. Maríu Elenu Bottazzi.

Vísinda­mennirnir þver­tóku fyrir að fá einka­leyfi fyrir því svo fá­tækari lönd gætu fjöl­faldað og fram­leitt bólu­efnið. Peter segir næstu bylgju Co­vid smita á leiðinni.

„Næsta stóra bylgja af smitum er á leiðinni, sú fjórða. Ég get ekki sagt ykkur hvort hún komi á næsta ári eða eftir fimm eða tíu ár en hún er á leiðinni,“ segir vísinda­maðurinn.

Hann segir Banda­ríkin ekki í góðri stöðu á meðan fjöldi bólu­settra sé eins lágur og raun ber vitni. „Antí-vaxxerarnir hafa sigrað að þessu leyti. Við erum enn að horfa upp á of mörg dauðs­föll.“

Peter segir heiminn í á­kveðinni bið­stöðu núna. „Við eigum eftir að sjá hvað gerist með þessi nýju af­brigði,“ segir vísinda­maðurinn sem spáir því að fjöldi smita muni aukast vestan­hafs þegar líður á þennan vetur.