Konan sem er talin hafa birst í klámmyndbandi sem tekið var upp í sjúkrabíl í húsnæði slökkviliðsins við Skógarhlíð í Reykjavík svaraði fjölmiðlaumfjöllun um málið á Instagram-síðu sinni í dag. Kallaði hún þar um umfjöllunina klámmyndbandið „mannorðsmorð“ og virtist hóta því að svara íslenskum fjölmiðlum í sömu mynt.

Í færslu á Instagram-síðu sinni skrifaði konan: „Eruð þið viss um að ykkur (og ykkar starfsfólki) langi í sandkassaleik við content creators og/eða sex workers?“ DV, Hringbraut, Fréttablaðið og mbl.is voru tögguð í færslunni.

„Við skulum endilega hafa nokkra hluti á hreinu,“ sagði konan í myndbandi með færslunni. „Meðal annars það að við sex workers erum frekar tight samfélag og við erum með töluvert magn af upplýsingum um okkar viðskiptavini, sem eru frekar margir og í stöðum og störfum.“

„Þannig að ef þið viljið og ætlið að halda áfram að taka þátt í mannorðsmorðinu sem er að eiga sér stað og á sér stað í kringum þetta allt saman bæði gagnvart creators og fleirum. Þá skulið þið prísa ykkur sæl að við gerum ekki slíkt hið sama, því þá væru ansi margir sem myndu missa vinnuna – hátt settir einstaklingar í alls konar stöðum. Blaðamenn, fréttamenn, þingmenn og alls konar.“