Heinz-Christian Strache, varakanslari Austurríkis, hefur sagt af sér embætti eftir að myndband, þar sem hann sést ræða við meintan rússneskan auðjöfur um aðstoð við gerð ríkissamninga gegn fjárhagsstuðningi í aðdraganda þingkosninga, var birt í fjölmiðlum.

Myndbandið var tekið upp á spænsku eyjunni Ibiza árið 2017. Þýskir fjölmiðlar á borð við Der Spieg­el og Su­eddeutsche Zeit­ung fjölluðu um þetta hneyksli í gær. Þar er jafnframt greint frá því að meintur rússneskur auðjöfur hafi siglt undir fölsku flaggi.

Strache tilkynnti um afsögn sína í sjónvarpsávarpi í dag en hann segist vera „fórnarlamb pólitískrar árásar“ sem skipulögð hafi verið með ólöglegum hætti. Strache tilkynnti jafnframt að flokksbróðir hans úr Frelsisflokknum (FPÖ), Norbert Hofer samgönguráðherra, tæki við af honum.

Hofer þessi tapaði naumlega í forsetakosningunum í Austurríki árið 2016 fyrir Alexander Van der Bellen. Hofer var með afgerandi forystu eftir fyrri umferð kosninganna. Öfgahægristefnan sem Frelsisflokkurinn rekur er sögð vera ástæðan að stuðningsmenn hinna ýmsu flokka fylktu sér á bak við Van der Bellen í seinni umferðinni og fór svo að hann lagði Hofer með 7% mun.

Frétt BBC um málið.