Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er meðal umsækjenda um stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem auglýst var laus til umsóknar í síðasta mánuði.

Aðrir umsækjendur um stöðuna eru Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri Vesturlands, Súsanna Björg Fróðadóttir, saksóknari hjá lögreglunni á Suðurnesjum og Daniel Johnson. Frá þessu var greint á vef Stjórnarráðsins.

Sex vilja starf lögreglustjórans í Vestmannaeyjum

Í gær rann einnig út umsóknarfrestur um stöðu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum en Páley Borg­þórs­dóttir lét þar af embætti og tók við stöðu lögreglustjóra á Norðurlandi eystra í júlí síðastliðnum.

Um það embætti sóttu Arndís Bára Ingimarsdóttir, sem gegnt hefur stöðunni tímabundið eftir brotthvarf Páleyjar, Grímur Hergeirsson, staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi, Helgi Jensson, aðallögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Kristmundur Stefán Einarsson, saksóknarfulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Logi Kjartansson, lögfræðingur og Daníel Johnson.

Deilur innan embættisins

Mikil ólga hefur verið innan embættis lögreglunnar á Suðurnesjum undanfarin misseri þar sem starfsmenn kvörtuðu til Ólafs Helga Kjartans­sonar, þáverandi lög­reglu­stjóra, undan meintu ein­elti af hálfu Öldu Hrannar Jóhanns­dóttur yfir­lög­fræðings og Helga Þ. Kristjáns­sonar mann­auðs­stjóra í byrjun júní.

Greint frá því í sumar að starfsmenn embættisins hafi einnig ítrekað kvartað undan framgöngu Ólafs Helga og að Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra hafi lagt til að hann myndi láta af störfum. Þann 19. ágúst var greint frá því að Ólafur myndi stíga til hliðar sem lögreglustjóri og taka við starfi sér­fræðings í mál­efnum landa­mæra hjá dóms­mála­ráðu­neytinu.

Síðan þá hefur Grímur Her­geirs­son, stað­gengil lög­reglu­stjórans á Suður­landi, tíma­bundið gegnt stöðu lög­reglu­stjóra á Suður­nesjum.

Fréttin hefur verið uppfærð.