Stjórn VR skorar á Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka að láta af óhóflegum vaxta­mun milli innlána og útlána. Félagið krefst þess að bankarnir sýni raunverulega samfélagsábyrgð á borði en ekki aðeins í orði.

Þetta kemur fram í nýrri ályktun stjórnar VR. Þar segir að meðalvextir útlána bankanna séu 5,22 prósent á móti aðeins eins prósents meðalvöxtum innlána. Mismunurinn sé heil 4,22 prósentustig.

„Það er nú þokkaleg álagning og satt að segja myndu flestir segja að verslun sem kaupi mjólkurlítra á 100 krónur en selji á 522 krónur væri með ofurálagningu. Lái okkur því hver sem vill ef við köllum þetta þá að sama skapi okurvexti,“ segir í bókun stjórnar.

Harpa Sævarsdóttir, varaformaður VR stéttarfélags, segir að sá sem eigi milljón inni á bankareikningi fái nú enga vexti. En ef hann sé svo óheppinn að missa vinnuna til dæmis vegna Covid og hafi ekki annað úrræði en að taka yfirdráttarlán þurfi sami maður að borga níu prósenta vexti. VR muni setja þessi mál á oddinn, því margir séu í vandræðum.

„Það er pínu siðlaust hjá bönkunum að auglýsa mikinn hagnað og snúa svo hnífnum í sárinu með því að hækka vexti nánast daginn eftir.“

Stóru bankarnir þrír, Landsbanki, Arion banki og Íslandsbanki, hafa allir nýlega skilað uppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2021. Samanlagður hagnaður þeirra er 37 milljarðar króna á tímabilinu. Landsbankinn skilar mestum hagnaði eða 14,1 milljarði, Arion banki 13,8 milljörðum og Íslandsbanki 9 milljörðum króna.