Dularfullur taugasjúkdómur hefur að undanförnu greinst hjá æ fleiri ungmennum í kanadíska fylkinu Nýju-Brúnsvík. Þetta hafði fréttamiðillinn The Guardian eftir uppljóstrara frá heilbrigðisstofnuninni Vitalité, sem er önnur tveggja stofnana sem heldur utan um heilsugæslu Nýju-Brúnsvíkur.

Í grein The Guardian er haft eftir uppljóstraranum að mikil fjölgun hafi orðið í tilfellum taugaveikinnar og að meðal einkenna hennar séu skyndilegt þyngdartap, svefnleysi, ofsjónir, erfiðleikar við einbeitingu og skert hreyfigeta. Átta tilfelli hafa leitt til dauða.

Sjúkdómurinn greindist upphaflega sumarið 2021 og enn er heildartala tilfella aðeins 48. Í heimildum sem bent er á í grein The Guardian er hins vegar talið að allt að 150 manns kunni að hafa smitast. „Þetta er ekki bara sjúkdómur í Nýju-Brúnsvík,“ sagði uppljóstrarinn, sem kom ekki fram undir nafni þar sem hann hafði ekki heimild til að tjá sig opinberlega. „Við erum líklega fyrsta svæðið sem gerir viðvart um hann því við erum að mestu dreifbýl og erum á svæði þar sem fólk verður fyrir meiri utanaðkomandi áhrifum.“

Stjórnvöld í Nýju-Brúnsvík hafa látið í veðri vaka að dauðsföllin átta sem rakin hafa verið til taugasjúkdómsins hafi í raun verið vegna þekktra sjúkdóma eins og Alzheimer sem hafi einfaldlega verið greindir vitlaust. Uppljóstrarinn segir aldur sjúklinganna benda til annars: „Það að við erum með yngri hóp af sjúklingum hérna bendir eindregið gegn þeirri afstöðu sem stjórnin í Nýju-Brúnsvík virðist höll undir – að tilfellin í þessum smithóp hafi verið ranglega flokkuð saman.“

Aðstandendur karlmanns sem lést úr taugasjúkdómi haustið 2019 hafa farið fram á að lík hans verði krufið til að leita að taugaeitrum. Hinn látni, Laurie Beatty að nafni, var einn af átta sem stjórnvöld hafa lýst yfir að hafi verið greindur með skakkan sjúkdóm og hafi í raun látist úr Alzheimer. Tilgáta hafði verið uppi um að dauðsfallið mætti rekja til taugaeitursins β-metýlamínó-L-alanín (BMAA). BMAA er amínósýra sem hefur meðal annars fundist í humri, sem er mikilvæg verslunarvara í hafnarbæjum Nýju-Brúnsvíkur. Því grunar suma aðstandendur hinna látnu að pólitískur ásetningur liggi að baki viðleitni stjórnvalda til að útiloka möguleikann á að einn sjúkdómur hafi valdið dauðsföllunum.