Vísindamenn vara nú við nýju afbrigði af Covid-19 sem kann að vera enn meira smitandi en Delta-afbrigðið.

Samkvæmt frétt The Guardian um afbrigðið, sem nefnist B.1.1.529, eru 32 stökkbreytingar í broddpróteini þess. Flest bóluefni nota broddpróteinið til þess að virkja ónæmiskerfið gegn Covid og stökkbreytingar í því geta erfiðað ónæmisfrumum að vinna bug á veirunni.

Hingað til hafa tíu sýkingar af veiruafbrigðinu greinst í þremur löndum. Þær þrjár fyrstu greindust í Botsvana, síðan sex í Suður-Afríku og ein í Hong Kong. Síðastnefnda sýkingin var í manni sem hafði flogið til Hong Kong frá Suður-Afríku eftir að hafa gengist undir veirupróf og fengið neikvætt svar. Hann greindist með nýja afbrigðið á meðan hann var í sóttkví eftir komuna til Hong Kong.

Veirufræðingurinn Tom Peacock við Imperial-háskólann í London tók saman helstu einkenni nýja afbrigðisins og deildi þeim á vefsíðunni GitHub, sem notuð er til að deila genamengjum.

„Það má undirstrika að þetta afbrigði er í afar lágri tíðni í hluta af Afríku þar sem við höfum tiltölulega mörg sýni,“ skrifaði Peacock í færslu á Twitter-síðu sinni. „Það ætti þó tvídæmalaust að hafa eftirlit með því út af þessari hræðilegu broddasamsetningu.