Heil­brigðis­starfs­fólk í Dan­mörku hefur á­hyggjur af notkun ung­menna á nikó­tín­púðum sem virðast setja púðana í slím­húð á aðra staði líkamans en þeim er ætlað.

Notkun nikó­tín­púða er vel þekkt hjá bæði full­orðnum og ung­mennum sem oftast er komið fyrir í efri vör í munni. Dönsk ung­menni hafa tekið upp á því að setja púðana í slím­húð annars staðar á líkamanum, í enda­þarm, leg­göng og undir for­húð karl­manna. Upp­tök nikó­tín­púðana eru ekki jafn mikil á þeim svæðum líkt og í munni.

Talið er að þessi ó­hefð­bundna notkun tengist oft á tíðum sam­kvæmum ung­menna, og þau séu að mana hvort annað upp í að prófa. Aðrir eru orðnir háðir nikó­tín­púðunum og vilja ekki að for­eldrar þeirra komist að notkuninni, segir Rikke Højland heilsu­ráð­gjafi í Hol­ster­bro í Dan­mörku í samtali við fréttastofuDR.

Rikke telur slíka notkun mikið á­hyggju­efni fyrir lýð­heilsu ungs fólks til fram­tíðar og segir púðana valda skemmdum í slímhúð á tilteknum svæðum, líkt og í munni þar sem tann­hold er oft mjög illa farið eftir þegar notkunin er mikil, segir Rikke.

Horfðu á kennslumyndband á YouTube

Hópur drengja á Jót­landi horfðu á YouTu­be mynd­band til að sjá hvernig ætti að koma nikó­tín­púðum fyrir undir for­húðinni. Það endaði fremur illa að sögn Char­lotte Rømer heilsu­ráð­gjafi í Hjørring í Dan­mörku.

„Þeir hefðu verið að skemmta sér og gert tilraun með púðana. Einn þeirra gleymdi svo að taka pokann undan for­húðinni og vaknað morguninn eftir með afar rauðan, bólginn og auman liminn,“ segir Char­lotte og bætir við að þetta hafi verið í fyrsta og síðasta skipti sem hann reyndi þetta.

Þá á­ætlar lýð­heilsu­stofnun í Dan­mörku að um tíu prósent ung­menna noti nikó­tín­púða eða aðrar vörur sem inni­halda nikó­tín.