Margir hafa tilkynnt tjón á ökutækjum sínum vegna bikblæðinga í desember.

Í frétt RÚV er haft eftir G. Pétri Matthíassyni upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar að um 230 ökutæki hafi orðið fyrir tjóni og tilkynnt það til Vegagerðarinnar. Í fréttinni kemur fram að upphæð tjónanna í heild sé komin upp í 29 milljónir króna og Vegagerðin greiði það. Tjónin í desember urðu á Norður- og Vesturlandi.

Í dag er svo varað við bikblæðingur á vestanverðum Svíadal og i Reykhólasveit. Þetta kemur fram á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Hitasveiflur

Blæðingar eru alþjóðlega þekktar en miklar hitasveiflur á skömmum tíma eins og oft einkennir íslenskt veðurfar gerir bikblæðingar af þessu tagi algengari hér en víða annars staðar. Lítið er hægt að gera til að koma í veg fyrir þær en skoðað er nú að koma á þungatakmörkunum, segir G. Pétur.

Á vef Vegagerðarinnar segir að verði vegfarendur fyrir tjóni af þessum völdum, eða hafði orðið fyrir tjóni, sé best að fylla út tjónaskýrslu á vef Vegagerðarinnar á þessari síðu

Ef einungis sé þörf á þrifum er rétt að hafa samband við næstu þjónustustöð Vegagerðarinnar eða skoðunarmann í Reykjavík í síma 898-3210