Tveir menn á ferð um Norðurland hafa gerst svo kræfir að panta sér gistingu á hótelum undir dulnefni og stinga síðan af án þess að borga með ýmis verðmæti. Varað er við þjófunum á Facebook síðunni Bakland ferðaþjónustunnar. Þar kemur fram að mennirnir hafi þegar látið til skarar skríða á Hótel Laugarbakka og á Viking Cottages & Apartments á Akureyri.

Varað við Juliu Hurley

Ferðalangarnir pöntuðu sér herbergi undir nafninu Julia Hurley sem sögð er vera frá Bretlandi. Í stað Juliu mæta þó tveir karlmenn á svæðið. Á Hótel Laugarbakka bókaði tvíeykið tveggja nátta gistingu og borðaði kvöldmat sem skrifaður var á herbergið. Þá segir hótelstjóri mennina hafa viljað borga við útritun þegar eiginkona annars þeirra átti að vera mætt á svæðið.

Mennirnir borguðu þó ekki krónu og voru stungnir af eldsnemma eftir fyrstu nóttina og höfðu þeir með sér farsíma úr herbergi sínu. Hótelstjóri telur tjón vera metið á yfir áttatíu þúsund og varar aðra við mönnunum.

Hótelrekendur Viking Cottages & Apartments voru illa leikinn eftir heimsókn tveggja þjófa.
Mynd/Viking cottages and apartments

Verðmæti hafin á brott í skjóli nætur

Á Viking Cottages & Apartments var sami leikur leikinn og aftur hafði hin breska Julia Hurley bókað tvær nætur á hótelinu. Þjófarnir sem mættu í hennar stað létu sig hverfa í skjóli nætur og stálu í þetta skiptið verðmætum sem metnar eru 200 þúsund krónur.