Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við nýju afbrigði af Covid-19 sem stofnunin segir að sé mest smitandi af öllum þeim undirafbrigðum sem hafi verið greind hingað til. The Daily Mail greinir frá.
Afbrigðið XBB.1.5 hefur hlotið viðurnefnið „The Kraken“ sem er tilvísun í áttarma sjávarskrímsli, hefur náð talsverðri fótfestu í Bandaríkjunum. Talið er að tæplega sjötíu prósent af nýjum smitum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti vegna faraldursins séu af þessu nýja afbrigði.
XBB.1.5 hefur einnig náð til Bretlands og fer um landið eins og stormsveipur, sem gefur til kynna að það hafi mikið vaxtarforskot á aðra stofna veirunnar.
Það sem veldur mestum áhyggjum varðandi nýja undirafbrigðið er hversu hratt það hefur breiðst út um bæði Bandaríkin og Bretland, en ný tölfræði alþjóðlega gagnabankans GISAID bendir til þess að tæplega átta prósent nýrra tilfella af Covid-19 í Bretlandi á síðustu tveimur vikum séu af þessu nýja afbrigði.

Dr Maria Van Kerkhove, faraldsfræðingur hjá Alþjóðamálaheilbrigðisstofnun, segist hafa miklar áhyggjur af þessari öru útbreiðslu nýja afbrigðisins.
„Áhyggjurnar byggjast aðallega á hversu bráðsmitandi nýja afbrigðið er. Því meira sem afbrigðið dreifist því meiri líkur eru á því að það fái tækifæri til að stökkbreytast,“ segir Van Kerkhove. Þá hafi sérfræðingar einnig miklar áhyggjur af því að stökkbreytingin hafi þegar átt sér stað og sé þess valdandi að fólk smitist frekar, þrátt fyrir fyrri sýkingar og bólusetningar.
Samkvæmt Bandarísku smitsjúkdóma- og ofnæmisstofnunni er stofn afbrigðisins XBB.1.5 orsök allt að fjörutíu prósent smita í Bandaríkjunum á landsvísu, en sífellt fleiri greinast á degi hverjum með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið og spítala.
XBB.1.5. hefur greinst víða um heim, meðal annars í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Spáni, Írlandi, Ástralíu, Singapore og Indlandi.
Update on #Omicron XBB.1.5 subvariant from today’s @WHO press conference on #COVID19 and other health emergencies ⬇️
— Maria Van Kerkhove (@mvankerkhove) January 4, 2023
(🙏 @mrigankshail for clip) https://t.co/cOfYxfqoNu