Hópur erlendra ungmenna sem nú er staddur á Íslandi lýsir óþægilegu atviki sem þau lentu í er þau fóru í náttúrulaug á norðurlandi. Þau segja ókunnugan karlmann, sem þau telja vera túrista sem sé á ferð um landið, hafa tekið myndir af sér allsberum eða lítið klæddum í óleyfi, en í kjölfarið hafi þau haft uppi á honum og fengið hann til að eyða myndunum.

Umræddur hópur samanstóð af fimm konum og einum karlmanni. Í samtali við Fréttablaðið lýsa tveir meðlimir hópsins atburðinum sem átti sér stað síðastliðið sunnudagskvöld. Þau ætluðu að eiga notalega og rólega kvöldstund í lauginni sem er staðsett nálægt Húsavík.

„Eins og hann væri að segja að við gætum ekkert gert í þessu“

Þegar þau höfðu verið í lauginni í um það bil hálftíma gekk maðurinn úr hópnum frá þeim að bílnum sem þau komu á, og á meðan fóru konurnar upp úr og fóru að skipta um föt. Þau taka fram að á meðan þau voru í baðlaugini voru þau klædd baðföt, en á meðan þau voru að skipta um föt segjast þær hafa orðið varar við mann í fjarska, og töldu líklegt að hann væri að taka myndir af þeim.

„Það var maður þarna og við sáum að myndvélin hans snéri að okkur,“ segir kona úr hópnum og bætir við að grunurinn um að hann væri að mynda þær af vaxið á örskömmum tíma, enda þótti þeim litlar líkur að hann væri að gera eitthvað annað.

Þá lýsa þau því að þegar maðurinn hafi orðið þess áskynja að þær höfðu orðið varar við hann, þá hafi hann veifað til þeirra. „Það væri eins og hann væri að segja að við gætum ekkert gert í þessu,“segir viðmælandinn um það hvernig þau túlkuðu veif mannsins.

Flúði á brott en fundu hann skömmu síðar

Í kjölfarið fór maðurinn í bílinn sinn og keyrði á brott. Þau veltu fyrir sér hvort þau ættu að reyna að elta hann uppi, en voru ómeðvituð um hvert leið hans hafi legið, og ákváðu því að fara heim á leið.

Þrátt fyrir það segjast þau hafa séð bíl mannsins aftur á leiðinni. Þau segja manninn hafa verið í bílnum ásamt konu, sem þau telja líklegt að hafi verið kærasta hans. Þau fóru til þeirra og áttu við þau tal.

Taldi sig mega taka myndir af „kynþokkafullum líkömum“

Samkvæmt þeim voru samskiptin við manninn erfið og segja hann hafa verið gríðarlega dónalegan. Þá hafi konan sem var með honum flissað eða hlegið á meðan þau ræddu saman.

Þau kröfðust þess að hann myndi eyða myndunum af sér, enda þótti þeim hann hafa brotið á sér með því að hafa taka þær í óleyfi. Samkvæmt þeim svaraði maðurinn fyrir sig með því að halda því fram að hann ætti rétt á að taka myndir af „kynþokkafullum líkömum úti í náttúrunni“.

„Hann kenndi okkur um og sagði að við hefðum átt að fara varlega“ segir ein konan og bætir við „Hann sagði að það væri okkur að kenna að nú ætti hann myndir sem hann tók í leyfisleysi af okkur nöktum í myndavélinni sinni,“

Þá segja þau að þegar maðurinn hafi sagt að hann „fílaði“ að þær væru að biðja hann um að eyða myndunum. Auk þess hafi hann í gegn um samtalið kallað þær fallegar og kynþokkafullar. Þeim fannst slík ummæli niðrandi í sinn garð og hlutgerandi, og lýsa kvenfyrirlitningu og kvenhatri að hans hálfu.

Líklega meira en hundrað myndir

Maðurinn samþykkti að endingu að sýna þeim myndirnar, en segja hann hafa staðsett myndavélina í klofinu á sér og ætlast til að þær myndu skoða myndirnar þar. Þær sættu sig þó ekki við það.

Að lokum segjast þær hafa séð myndirnar. Þau fengu enga nákvæma tölu á hversu margar þær voru, en telja þær hafa verið fleiri en hundrað talsins. Þá segja þau að þær hafi að minnsta kosti sýnt þrjár af fimm þeirra naktar. Þá hafi þeim teksit að eyða þessum myndum úr vélinni.

Í kjölfarið höfðu þau samband við lögregluna sem sagðist skrá manninn í gagnagrunninn hjá sér, en þar sem að myndunum hafði verið eytt væri erfitt að grípa til frekari aðgerða. Því væri málinu eflaust lokið í lagalegum skilningi. Aðspurð segjast þau skilja að lögreglan hafi ekki geta gengið lengra í aðgerðum sínum.

Segja söguna til að vara aðra við

Hópurinn segir frá þessari upplifun sinni til að vara við manninnum sem þau telja að sé túristi og ferðist þessa dagana um Ísland. Þau vonast til þess að fregnirnar af uppátæki hans muni ná til hans og hann muni læra sína lexíu. Enda finnst þeim ósanngjarnt að kvöldstund, þar sem þau hafi ætlað sér að hafa það notalegt saman, hafi eyðilagst vegna hegðunar þessa eina manns.

„Þetta er ekki í lagi og ég vona að hann muni fyrir þessu á einvhern hátt, og hann muni því aldrei gera þetta aftur,“ segir til að mynda kona úr hópnum.