Banda­rískar leyni­­þjónustur telja miklar líkur á því að öfga­­menn úr röðum íslam­ista, með að­­setur í Af­gan­istan, geri hryðju­­verka­á­rás á Banda­­ríkin á næstu sex mánuðum.

Öryggis­á­standið í Afgan­istan hefur versnað mjög síðan tali­banar tóku við stjórn þess. Undan­farið hafa hryðju­verka­sam­tökin ISIS-K, sem tengd eru ISIS, gert mann­skæðar á­rásir víða um land. Þær beinast einkum að sjía­múslimum og minni­hluta­hóp Hazara sem sam­tökin telja að að­hyllist ekki rétta íslams­trú. ISIS-K eru harðir and­stæðingar tali­bana og segja þá hafa svikið mál­stað íslam­ista og vilja hindra að þeir geti náð fullri stjórn á Afgan­istan.

Hinn 13 ára gamli Ali féll í árás ISIS-K á mosku sjía í Kandahar 23. októ­ber á­samt 31 til við­bótar.
Fréttablaðið/EPA

Hátt­settur em­bættis­maður í banda­ríska varnar­mála­ráðu­neytinu segir að ISK hafi „bol­magn“ til að gera á­rásir utan landa­mæra Afgan­istan, þar á meðal á banda­rískri grundu, „innan sex eða 12 mánaða“. Hann segir að það taki al-Qa­eda ár eða tvö að afla slíkum styrk.

„Við verðum að vera á varð­bergi gegn þeim mögu­leika,“ sagði Colin Kahl, að­stoðar­varna­mála­ráð­herra, á fundi hernaðar­nefndar öldunga­deildarinnar. Áður en Banda­ríkin og banda­lags­ríki réðust inn í Afgan­istan í októ­ber 2001 var landið mið­stöð hryðju­verka­sam­taka og voru hryðju­verkin 11. septem­ber skipu­lögð að hluta þar. Nú óttast banda­rískar leyni­þjónustur að fallið sé í sama farið, þrátt fyrir lof­orð tali­bana um að leyfa hryðju­verka­sam­tökum ekki að at­hafna sig þar.

Á­standið í Afgan­istan síðan er­lent her­lið hvarf á brott í lok ágúst hefur verið afar erfitt og segja Sam­einuðu þjóðirnar að þar standi nú yfir „mesta mann­úðar­krísa heims“. Stærstur hluti íbúa glímir við matar­skort og telur SÞ að um 19 milljónir fái ekki nægan mat, bæði vegna mikilla þurrka og hruns hjálpar­starfs.

Þá er talið að 13 milljónir til við­bótar eigi í erfið­leikum við að afla sér matar og 3,5 milljónir barna eigi í hættu á að svelta. Vetur gengur brátt í garð í Afgan­istan sem gerir á­standið enn erfiðara. Ráðast þurfi í um­fangs­miklar að­gerðir til að koma í veg fyrir að staðan versni enn frekar.

„Hver af­ganskur maður, kona og barn vita að það er mjög al­var­­leg krísa í gangi. Við höfum ekki séð það versta enn,“ segir Dick Trenchard hjá Mat­væla- og land­búnaðar­­stofnun Sam­einuðu þjóðanna við Financial Times.

„Þetta er enn að versna. Við höfum ekki áður séð krísu sem hefur aukist svona mikið svona hratt. Hraði hrunsins - og um­­­­­fang þess - er svo ógn­vekjandi,“ segir hann. „Það er ekkert plan B. Við þurfum gríðar­­­lega aukningu í mann­úðar­­­starfi til að koma Af­­­gönum í gegnum veturinn fram á næsta ár“.

Ríkis­stjórnir víða um heim hafa heitið því að veita Af­gönum einn milljarð banda­ríkja­dala í neyðar­að­stoð. Einungis brota­brot þess fjár­magns hefur ratað til Sam­einuðu þjóðanna, sem hafa um­sjón með hjálpar­starfi í landinu.

Liðs­menn tali­bana í Kandahar. Tali­banar eiga í miklum erfið­leikum með að tryggja öryggi í Afgan­istan.
Fréttablaðið/EPA