Vísindaráð almannavarna varar við svokölluðum hraumbombum sem geta fallið til jarðar á gossvæðinu í Geldingardölum. Ef kviku­strókarnir ná 300 metra hæð og vindur er 13-15 metrar á sekúndu má búast við að bomburnar, molar/slettur sem eru meira en 6 sentí­metrar í þver­mál, falli í allt að 600 metra fjar­lægð frá gígnum.

Þetta er meðal þess sem fram kom í til­kynningu frá vísinda­ráði al­manna­varna í gær. Elísa­bet Pálma­dóttir, náttúru­vá­sér­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands, segir að­spurð það ekkert ó­vit­laust að vera með hjálm á svæðinu, ætli fólk sér inn á hættu­svæði.

„Þetta getur alveg verið heitt að innan. Þetta er að brenna mosa og kveikja í,“ segir hún. Hættu­svæðið sé skil­greint út frá þeim mögu­leika að þar geti rignt yfir fólk hrauni.

Um sé að ræða sama efni og áður hafi rignt yfir gossvæðið en einn og einn biti sé stærri. „Og í raun er það bara skil­greint sem hraun­bomba ef það er stærra en 64 millí­metrar í þver­mál,“ segir hún.

Orðið bomba sé því að ein­hverju leyti dramatískt og lík­lega eðli­legra að ræða um slettur. Í til­kynningu frá Vísinda­ráði í gær kom fram að aukið kviku­flæði sé nú í gosinu.

Vegna aukinnar kviku­­stróka­­virkni í eld­­gosinu undan­farið þeytast kviku­­strókar 100 til 300 metra upp úr gígnum og gjalli og hraun­­slettum rignir niður um­­hverfis gíginn og ræður vind­átt hvert það berst.

Glóandi sletturnar geta svo kveikt í mosa og gróðri sem þau lenda á. Auk þess er í reyknum frá þessu mikið af kol­món­oxíði (CO) sem er eitrað fólki en það mælist stundum svo mikið í gróður­bruna hjá gosinu að slökkvi­liðs­­menn myndu nota reykköfunar­­tæki ef þeir ætluðu inn á svæðið.

Tilkynning frá lögreglu. Bílastæði: Bannað er að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Leggja skal bílum á...

Posted by Lögreglan á Suðurnesjum on Thursday, 13 May 2021