Brunavarnir Árnessýslu vara við hættu á gróðureldum nú þegar landsmenn skjóta upp flugeldum til að fagna nýju ári. Veðurfar hefur verið með þurrasta móti sem skapar mikla hættu á slíkum eldum. Brunavarnir Árnessýslu vilja því árétta að fólk sýni ýtrustu varkárni nú um áramótin við notkun á flugeldum og meðferð elds þar sem einungis lítinn neista þarf til að kveikja mikið bál.
Einstaklega þurrt er nú á Suðurlandi og gróður mjög þurr. Lítið þarf því til að koma af stað gróðureldum sem getur valdið mikilli eyðileggingu á gróðri, dýralífi og jafnvel stefnt mönnum og mannvirkjum í voða.
Nauðsynlegt sé að hafa í huga að skjóta ekki upp flugeldum á stöðum þar sem hætta er á að glóð eða eldur geti farið í gróður og kveikt gróðurelda.
Brunavarnir Árnessýslu beina þeim tilmælum til fólks að hafa við höndina slökkvitæki, garðslöngu, eða vatnsfötur með vatni við notkun flugelda svo bregðast megi skjótt við ef eldur fer í gróður.
Í nótt kviknuðu gróðureldar á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru flugeldar að öllum líkindum sökudólgurinn.
Veður til flugeldasprenginga í kvöld verður með besta móti víðast hvar um landið í kvöld. Þetta segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á Fréttablaðinu og Hringbraut. Útlit er fyrir að vindar hindri að svifryksmengun, sem er fylgifiskur flugeldanna, sitji eftir.
Þó gæti hún orðið nokkur við Eyjafjörð þar sem logn verður. „Vindurinn verður yfirleitt austanstæður, skyggni gott, úrkomulaust en kalt. Mér sýnist þó að hitinn gæti lafað yfir frostmarki við sjóinn sunnan og vestan til“, segir hann.