Lögreglan á Suðurlandi varar fólk við því að vera á ferðinni um vatnasvið Grímsvatna.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu þeirra.

Lögreglan segir hættur vera vegna sigs íshellunnar og jökulsprungna sem myndast í kjölfarið. Þá sé ekki hægt að útiloka eldgos í kjölfar jökulhlaups.

Búist er við því að jökulhlaup við Grímsvötn hefjist í dag eða á morgun miðað við stöðuna. Á rúmum tveimur sólarhringum hefur íshellan sigið um 83 sentímetra.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er þó ekkert sem bendir til þess núna að eldgos sé að hefjast.