Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svokölluðu ástar- eða traustsvindli sem verður æ algengara á Íslandi. Í tilkynningu sem þau birtu í kvöld segir að baki slíku svindli liggi skipulögð glæpastarfsemi og að aðferðir þeirra séu mjög þróaðar.
„Enginn heldur að svona komi fyrir það, en samt gerist það oft á hverjum degi í heiminum og reglulega á Íslandi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Þar er slíkt svindl útskýrt nánar og segir að það eigi sér stað þegar glæpamenn setja sig í samband við fólk undir fölsku yfirskin. Svindlararnir búa sér til falska persónu og sýna manneskjunni mikinn áhuga og nota orð eins og sálufélagi og lífsförunautur. Þau segja að svindlararnir viti upp á hár hvað þau eigi að segja til að mynda traust og samband við manneskjuna sem þau eru að tala við.
„Þegar svindlararnir hafa byggt upp traust, þá leggja þeir til atlögu. Þeir búa til lygasögu með þeirri gulrót að þegar eitthvað sé gert geti persónan sem þeir hafa búið til og brotaþoli verið saman og yfirleitt á „viðkomandi“ næga peninga til að þau geti búið til gott og vandræðalaust líf,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Þegar því er lokið þá biðja þau manneskjuna að senda þeim pening í einhverjum tilgangi, að borga gjöld fyrir pakka eða greiða einhver gjöld.
„Þessi listi er langur og ekki tæmandi, en alltaf er brotaþoli er beðin um peninga. En í hvert sinn sem peningur er sendur þá kemur upp nýtt flækjustig sem þarf líka að borga. Listinn yfir slík flækjustig er endalaus og hættir aldrei,“ segir lögreglan.
Mikil skömm
Þau segja mikla skömm fylgja því að festast í slíkri svikamyllu og jafnvel fordómar í samfélaginu. En ítreka að skömmin eigi heima hjá svindlurum og það eigi ekki að dæma þá sem lendi í slíkum svindlum.
„Þetta er skipulögð glæpastarfsemi. Svindlararnir leggja út sín net og leita að fólki sem þeir leggjast á með vönduðum aðferðum. Aðeins þegar þeir telja að komið sé upp traust í sambandinu þá leggja þeir til atlögu,“ segir lögreglan og beinir því svo til fólks að leita sér aðstoðar ef það telur að það sé að festast eða sé fast í slíkri svikamyllu.
Ef þú eða einhver nákomin þér er flæktur í svikamyllu þá er best að hafa samband við lögreglu: cybercrime@lrh.is og/eða abendingar@lrh.is
Ástar/traustsvindl hefur færst í aukanna á Íslandi og á heimsvísu. Engin heldur að svona komi fyrir það, en samt...
Posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu on Thursday, 18 March 2021