Vísinda­menn vara við því að um­merki um al­var­lega og ban­væna heila­kvilla af völdum kóróna­veirunnar gætu farið fram hjá læknum þegar þau birtast í sjúk­lingum sem hafa náð sér af- eða eru með væg ein­kenni Co­vid-19.

Tauga­sér­fræðingar birtu í dag skýrslu um yfir fjöru­tíu breska Co­vid sjúk­linga sem hafa hlotið heila­skaða af völdum kóróna­veirunnar. Ein­kenni teygja sig frá heila­bólgu og ó­ræði til tauga­skaða og heila­blóð­falls. Í ein­hverjum til­vikum var tauga­sjúk­dómurinn fyrsta og megin ein­kenni sjúk­dómsins.

Alvarleg heilkenni

Til­fellin sýndu fram á aukningu í sjúk­dómi að nafninu acute dis­semina­ted encephalomye­litis (Adem). Í mælingum Tauga­fræði­deildar Há­skólans í Lundúnum hafa til­vik sjúk­dómsins farið frá því að vera eitt í mánuði, fyrir heims­far­aldurinn, upp í að vera nú tvö til þrjú í viku. Kona á sex­tugs­aldri lést á dögunum vegna sjúk­dómsins.

Tólf sjúk­lingar þjáðust af heila­bólgu í mið­tauga­kerfinu, Tíu voru með heil­sjúk­dóm með óraði eða geð­rofi. Átta fengu heila­blóð­fall og átta til við­bótar út­tauga­sjúk­dóm, greint sem Guillain Bar­ré heil­kennið, þar sem ó­næmis­kerfið ræðst á eigið út­tauga­kerfi og veldur lömun. Það er ban­vænt í fimm prósent til­vika.

Kórónaveiran getur valdið margvíslegum sjúkdómum sem ráðast á heilann.

Ólíkt öðrum veirusjúkdómum

Michael Zandi, höfundur skýrslunnar, segir niður­stöðurnar sýna að á­hrif Co­vid-19 á heilann sé ólík því sem hefur sést í öðrum veiru­sjúk­dómum.

„Það sem við höfum séð í hluta Adem sjúk­linganna, og í öðrum sjúk­lingum, er að þú getur verið með al­var­legan tauga­sjúk­dóm, þú getur verið mjög veikur, en að­eins verið með smá­vægi­leg lungna­vanda­mál,“ sagði Zandi í sam­tali við Guar­dian.

Ein­hverjir sjúk­linganna geta búist við bara en aðrir munu glíma við lang­tíma fötlun og á­hrif sjúk­dómsins.