Úlfar Trausti Þórðarson, skipulags- og byggingarfulltrúi á Seyðisfirði, varaði við því í fyrra að aurflóð gætu fallið á bæinn.

Lagði Úlfar til að boruð yrðu göng inn í Botnabrún til að ræsa út vatn sem ella safnaðist fyrir í stórrigningum og gæti orsakað flóð.

„Þetta er eins konar drenun á massa til að hægja á honum eins hægt er,“ lýsti Úlfar aðferðinni í Fréttablaðinu 3. desember í fyrra. Komið hefðu miklar rigningar og aurskriður verið í ám og lækjum. „Þetta er beint fyrir ofan byggðina og það þarf að gera eitthvað til að hægja á þessu.“

Sagði Úlfar að fulltrúi frá Veðurstofunni hefði komið um haustið og sagt á íbúafundi að ástandið væri hættulegt. Aðspurður taldi hann kostnað við fyrrnefndar aðgerðir geta verið 800 til 1.500 milljónir króna. Síðan þá hefur eftirlit verið aukið með hættunni, en engin áætlun er um framkvæmdir.