Lyfja­stofnun og em­bætti land­læknis hafa á­reiðan­legar upp­lýsingar um að sjúk­lingar með Co­vid-19 hafi tekið lyfið Soolantra (i­ver­mektín) 10 mg/g um munn og rök­studdan grun um að það hafi haft al­var­legar auka­verkanir í för með sér. Lyfið er einungis ætlað til notkunar út­vortis á húð til með­ferðar við bólum.

Þetta kemur fram í sam­eigin­legri yfir­lýsingu Lyfja­stofnunar og em­bættis land­læknis. Í yfir­lýsingunni kemur fram að þetta til­tekna lyf sé notað til að með­höndla húð­sjúk­dóminn rós­roða og mikil­vægt að það sé að­eins notað á and­lits­húð en ekki aðra líkams­hluta. Þá er það undir­strikað að lyfið sé alls ekki ætlað til inn­töku.

„Forðast skal að kremið berist á augn­lok, varir eða slím­húðir, svo sem í nefi, munni, augum eða í meltingar­vegi. Ef kremið berst fyrir slysni á slím­húð sbr. framan­greint skal þvo svæðið tafar­laust með miklu vatni,“ segir í yfir­lýsingunni.

Þá kemur fram að auka­verkanir sem geta hlotist af inn­töku kremsins eða of­skömmtun i­ver­mektíns geta verið: Út­brot, bjúgur, höfuð­verkur, sundl, þrótt­leysi, ó­gleði, upp­köst og niður­gangur. Fleiri auka­verkanir sem til­kynnt hefur verið um eru: krampar, ó­sam­hæfðar vöðva­hreyfingar, mæði, kvið­verkir, nála­dofi og ofsa­kláði.

Til að tryggja sem best öryggi lyfja­not­enda hefur Lyfja­stofnun á­kveðið að Z-merkja lyfið og þar með tak­marka á­vísun þess, að minnsta kosti tíma­bundið við sér­fræðinga í húð­sjúk­dómum.