Bandaríska sendiráðið sendi frá sér tilkynningu rétt áðan þar sem sendiráðið varar bandaríska ríkisborgara við hættuástandi í miðbæ Reykjavíkur um helgina og að forðast margmenni.

Í yfirlýsingunni er lagt til að bandarískir ríkisborgarar fylgist með tilkynningum frá fjölmiðlum og verði á varðbergi um helgina.

„Bandarískir ríkisborgarar eru hvattir til að vera á varðbergi í miðbæ Reykjavíkur frá 25. nóvember til 27. nóvember, forðast mannmergð og fylgjast með fréttum úr íslenskum fjölmiðlum,“ stendur í færslunni

Gera má ráð fyrir að tilkynningin sé byggð á fréttaflutningi um yfirvofandi hefndarárás þar sem hópurinn sem varð fyrir árás á Bankastræti Club ætli sér að hefna sín á dyravörðum sem og almennum borgurum.

Margeir Sveins­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjón lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, sagði í gær að lögreglan hefði heyrt af þessari fyrir­huguðu árás og væri með málið til skoðunar.

„Við erum bara að meta þetta og skoða og teljum okkur vita svona nokkuð hvaðan þetta kemur. Þannig að við ætlum að reyna að stoppa þetta í fæðingu,“ segir Margeir.