Við hittumst daginn eftir útgáfuboð bókar þeirra, Reykjavík, sem kom út í vikunni og viðurkenna þau bæði að vera frekar illa sofin.

Katrín: „Ég er svo óvön svona partíum, meika þau ekki, svo ég svaf eiginlega ekkert í nótt. Ég er bara ekki mikið fyrir mannmergð en það er svolítið gaman að því að bókin gerist 1986, þegar við vorum bæði 10 ára, og ég man vel eftir mannmergðinni á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar og ég þurfti að koma mér í gegnum hana til að ná í sneið af kökunni.“

Bókin Reykjavík gerist, eins og Katrín segir, mestmegnis árið 1986, árið sem leiðtogafundur Reagan og Gorbatsjev fór fram í Höfða, Stöð 2 og Bylgjan hófu útsendingar og síðast en ekki síst, Reykjavíkurborg varð 200 ára, hátíðarhöld settu svip sinn á borgina og allir sem gátu reyndu að ná sneið af 200 metra afmælistertunni sem stóð í Lækjargötu.

Ragnar: „Þetta var frábært boð en ég er sammála, ég svaf illa, þetta tekur svo mikla orku. Það hefur alveg áður verið vel mætt í útgáfuboð hjá mér og ég hef áður fyllt Iðnó en þetta var eiginlega tvöfaldur fjöldi.“

„Ég er svo óvön svona partíum, meika þau ekki, svo ég svaf eiginlega ekkert í nótt."

Katrín

Katrín: „Þetta var eiginlega bara tóm vitleysa, þetta byrjar ekki vel hjá okkur,“ segir hún og hlær. „Þetta er líka ákveðið spennufall, nú er þessi bók komin og þá er það þessi tilfinning – hvort þetta hafi verið góð hugmynd.“

Ragnar: „Ég þarf alltaf að peppa hana,“ segir hann blíðlega.

Katrín: „Ragnar er alltaf voða viss um að allt sé frábært en ég er bara alltaf með miklar efasemdir um allt sem ég geri. Sem er skrítið, verandi í minni stöðu. En þetta er nýtt og að vissu leyti erfiðara en að tala fyrir framan Sameinuðu þjóðirnar.“

Ragnar: „Já, ég horfði á fréttirnar í gærkvöldi þegar ég kom heim. Þar var fjallað um útgáfuboðið okkar en Katrín var eiginlega í öllum fréttum á undan líka. Ég hugsaði bara: Þvílík orka!“

Ragnar ekki móðgunargjarn

Talandi um það, það er ekki á hverjum degi sem starfandi forsætisráðherra skrifar skáldsögu. Hvernig náði Katrín að koma skrifunum fyrir í þéttri dagskrá sinni?

Katrín: „Í fyrsta lagi var heimsfaraldur í tvö ár sem breytti hegðunarmynstrinu. Maður var ekki að hitta vini og stórfjölskyldu, fara á tónleika eða stjórnmálafundi.

Allt í einu var aukatími.

Ég hef reyndar alltaf sagt að mér finnist að allir stjórnmálamenn eigi að hugsa um eitthvað annað en stjórnmál og þarna var verkefni sem ég gat sinnt og haft gaman af. Í öðru lagi er Ragnar með reynsluna af að skrifa, svo þetta var vel skipulagt, og í þriðja lagi, þá er ég rosalega vön að lesa og pæla í glæpasögum, þetta hjálpar allt.“

Bókin gerist árið 1986, árið sem leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða og Reykjavík varð skyndilega nafni alheimsins. Fréttablaðið/Ernir

Ragnar: „Við náðum mjög vel saman. Þetta var aldrei óþægilegt, heldur bara gaman.“

Katrín: „Þetta var aldrei óþægilegt en það var oft skoðanamunur.“

Ragnar: „Já, þetta var eins og gott ríkisstjórnarsamstarf, við fundum alltaf góða lendingu.“

En hvernig ætli jafnvægið hafi verið til að gagnrýna, þegar annar aðilinn er virtur glæpasagnahöfundur sem hefur fengið bækur sínar gefnar út víða um heim og hinn er vissulega óreyndur höfundur, en forsætisráðherra?

Katrín: „Ragnar er ekki móðgunargjarn maður sem er mjög heppilegt. Stundum hugsaði ég mig um áður en ég gerði athugasemdir, enda hann búinn að skrifa fjölmargar bækur. En svo gerði ég það samt, því ég er náttúrlega sjúklega frek,“ segir hún og hlær.

Ragnar: „Í grunninn vorum við sammála en þegar eitthvað kom upp gátum við einhvern veginn alltaf fundið lausn sem bæði voru sátt við. Þetta var fín tilbreyting fyrir mig sem er vanur að vinna einn. Allt öðruvísi upplifun og þess vegna fór ég út í þetta.“

Katrín: „Varst þú orðinn leiður á að skrifa einn?“

Ragnar: „Nei, en það er stundum einmanalegt að vera rithöfundur. Ég er duglegur að hitta fólk þegar ég er að skrifa en ég var aðallega orðinn leiður á að gefa út einn. Maður er kannski í tíu ár að fara í gegnum sama jólabókaflóðið og þetta verður svolítið keimlíkt. Það er meira gaman að gera þetta með öðrum og taka þá kannski oftar þátt í upplestrum og slíku.“

Katrín er fljót að gera út af við drauma meðhöfundar síns um sameiginlega upplestra og annað þess háttar kynningarstarf.

Katrín: „Svo verður enginn tími til þess.“

„Það er meira gaman að gera þetta með öðrum og taka þá kannski oftar þátt í upplestrum og slíku.“

Ragnar

Frelsi að fara aftur til 1986


Katrín og Ragnar hafa þekkst um árabil en það var Ragnar sem átti frumkvæðið að því að þau myndu láta á það reyna að skrifa saman bók.

Katrín: „Við eigum það sammerkt að vilja vera laus undan oki nútímans við skrifin þar sem taka þarf tillit til nútímatækni eins og farsíma, myndavéla og samfélagsmiðla, við rannsókn mála. Við höfðum rætt okkar á milli hversu íþyngjandi það væri – og þá kom upp þessi hugmynd hjá Ragnari, að fara aftur í tímann.“

Katrín segir það hafa kveikt í sér.

Katrín: „Mér fannst erfið tilhugsun, sem stjórnmálamaður, að skrifa sögu um Ísland árið 2022. En Reykjavík árið 1986 er nógu langt í burtu til að maður geti fundið smá frelsi.“

Uppleggið var saga af hvarfi ungrar stúlku úr vist í Viðey árið 1956. Þremur áratugum síðar, eða árið 1986, fer ungur blaðamaður að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf og hverfist bókin um þá rannsókn.

Ragnar: „Árið 1986 var ekki valið af tilviljun, heldur því það gerðist hreinlega allt þetta ár. Leiðtogafundurinn var í Höfða, Bylgjan og Stöð 2 hófu útsendingar og í bakgrunni var verið að byggja Kringluna, svo Reykjavík er að breytast gríðarlega mikið á þessu ári.“

„Árið 1986 var ekki valið af tilviljun, heldur því það gerðist hreinlega allt þetta ár."

Ragnar

Katrín: „Reykjavík varð allt í einu nafli alheimsins.“

Þau segjast hafa töluvert flett upp í dagblöðum frá árinu og reynt að fá sem sannasta mynd af atburðunum sem þau muna eftir sem börn. En þau gefi sér þó skáldaleyfi og eflaust fyrirfinnist sögulegar villur.

Ragnar: „Við laumuðum inn fólki frá þessum tíma, eins og útvarpsmönnunum, eins birtist Ólafur landlæknir og Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi heitinn.“

Katrín: „En allir aðalkarakterarnir eru skáldaðir.“

Ragnar: „Allir sem eru grunaðir um eitthvað glæpsamlegt.“


Leyniverkefni á kvöldin


Katrín og Ragnar sögðu frá því í sjónvarpsþætti haustið 2020 að þau væru að vinna að sameiginlegri bók.

Katrín: „Við vorum þá komin með hugmyndina en ekki beint byrjuð að skrifa. En svo fer maður að kíkja á þetta á kvöldin og vinna í þessu. Við skiptum með okkur verkum og sátum ekki saman við skriftir heldur sendum á milli og létum vita ef okkur fannst eitthvað ekki ganga upp og svo framvegis.“

En ætli lesendur geti greint á milli hvor höfundurinn sé að skrifa hverju sinni?

Katrín: „Kannski þeir sem þekkja okkur vel.“

Ragnar: „Markmiðið er þó að það sé ekki svo, enda er bókinni ritstýrt. Og við lesum hvort hjá öðru, leiðréttum og sendum á milli. Sumar málsgreinarnar eru búnar að fara fram og til baka og ég man ekkert endilega alltaf hver skrifaði hvað.“

Katrín segist ekki hafa hikað við að segja sína skoðun í ferlinu, þrátt fyrir að hafa verið sú reynsluminni í bókaskrifum, af þeim tveimur.

Katrín: „Við erum góðir vinir svo það var aldrei vandamál.

Þetta var svo fjarlægt hjá mér. Ég hugsaði alltaf: Þetta mun aldrei koma út – þessu verður alveg örugglega hafnað. Mér fannst því voða gaman að vera með eitthvert leyniverkefni. Ég er nú hætt að eignast börn, og það var skemmtileg tilfinning að vera að hugsa um eitthvað annað en bara vinnuna. Ég er ekki í golfi eða laxveiði eða hvað það er sem allir eru að gera. Svo þetta var pínu leyniverkefnið mitt sem ég sinnti á kvöldin. Svo bara er ég svo hissa að þetta sé komið út,“ segir hún og hlær.

„Ég er ekki í golfi eða laxveiði eða hvað það er sem allir eru að gera."

Katrín

Skammir frá forsætisráðherra

Ragnar segir völdin hafa hallað í hina áttina þegar hann fékk bókina til leiðréttinga frá prófarkalesara.

Ragnar: „Mér finnst það alltaf frekar leiðinlegt að lesa prófarkir, það er meira gaman að skrifa og skapa, svo ég tók mér góðan tíma í þetta. Ég var þá farinn að fá skammir frá Katrínu fyrir seinaganginn og það var svolítið skemmtilegt að fá skammir frá forsætisráðherra um að maður sé ekki að standa sig. Þá verður maður að hlýða.“

Katrín: „Þetta var þegar ég var veðurteppt á Ísafirði í marga klukkutíma og sá fram á að geta nýtt tímann.“

Ragnar: „Svo strandaði einhvern tíma á henni þegar hún var föst á fundum með Boris Johnson og Macron,“ segir hann og hlær.

Katrín og Ragnar eru bæði fædd árið 1976 og höfðu lengi vitað hvort af öðru þegar þau kynntust, að eigin sögn, í glæpaheiminum.

Katrín: „Ég hafði reyndar lengi vitað hver Ragnar væri því hann þýddi Agöthu Christie, byrjaði á því átta ára, eða hvað varstu gamall?“

Ragnar: „Ég var 17 ára.“

Katrín: „Svo er hann frændi drengja úr mínu skólahverfi, til dæmis Ragnars Helga Ólafssonar sem hannaði kápu bókarinnar, svo ég vissi af þér,“ segir hún og beinir orðum sínum að meðhöfundi sínum.

Ragnar: „Ég man eftir þér sem stigaverði í Gettu betur. Ég keppti fyrir Versló og þjálfaði síðar liðið og man eftir að hafa setið úti í sal þegar þú varst á sviðinu að telja stig. Svo kynntumst við í gegnum hátíðina Iceland Noir sem ég hef haldið undanfarin ár með Yrsu og fleiri höfundum, og mig minnir að Katrín hafi komið á fyrstu hátíðina.“


Allir með bók í maganum

Glæpasögur hafa eins og margir vita lengi verið áhugamál Katrínar en hún skrifaði bæði BA- og meistararitgerðir sínar við Háskóla Íslands.

Katrín: „Meistararitgerðin var um Arnald Indriðason sem er auðvitað mín goðsögn í þessum bransa.“

Leiðir Katrínar og Ragnars lágu svo saman í gegnum pallborðsumræður um glæpasögur, dómnefndarstörf um bestu þýddu glæpasöguna og fleira.

Katrín: „Í dómnefndinni sátum við með Kolbrúnu Bergþórsdóttur og hún hvatti okkur til að skrifa. Hún hefur ansi oft rétt fyrir sér. En þetta samstarf okkar var rætt án ábyrgðar lengi.“

Ragnar: „Íslendingar eru allir með einhverja bók í maganum. Ég sá það í augunum á Kötu að hana hefur alltaf langað að skrifa glæpasögu þó hún hafi ekki sagt það við mig. Mér fannst það eiginlega augljóst, manneskja sem les svona mikið og er svona mikil menningarmanneskja: Af hverju ætti hún ekki að vilja skrifa? Svo ég bara stakk upp á því!“

Katrín: „Ragnar er framkvæmdamaður. Ég hef meira verið á hugmyndastiginu í þessu. Ég hef alveg sagt að það hafi verið draumur að skrifa. Ég les fáránlega mikið. Mikið meira en ég horfi á sjónvarp. En þegar ég horfi á sjónvarp þá horfi ég á lögguþætti. Ég les reyndar ekki bara glæpasögur, heldur alls konar bækur.“

„Ragnar er framkvæmdamaður. Ég hef meira verið á hugmyndastiginu í þessu."

Katrín

Ragnar: „Bókin er tileinkuð Agöthu Christie enda eina manneskjan sem við gátum sameinast um. Ég las hana sem unglingur og heillaðist af ráðgátunum, þetta snýst ekki um morð eða ofbeldi. Þetta er eiginlega líka smá stærðfræði. Púsl sem þarf að ganga upp.“

Katrín: „Mér finnst alveg gaman að lesa um ofbeldi og kynlíf en hefði ekki lagt í að skrifa um það. Ég er ekki búin að ná þeim þroska að ég leggi í það,“ segir hún og hlær.

Katrín rifjar upp að þegar þau Ragnar voru börn hafi verið gullöld útvarpsleikritanna og aðdáun þeirra smitist jafnvel aðeins inn í bókina

„Lesandinn er svolítið kominn inn í útvarpsleikrit frá árinu 1986.

Ragnar: „Þetta er náttúrlega árið!“

Katrín lýsir því sjónvarpsútsendingunni frá Höfða þar sem sýnt var frá lokuðum dyrum og teiknimyndum skotið inn á milli. Þegar blaðamaður dáist að minninu segir hún:

„Ef maður nýtur þeirra forréttinda að eiga góða og örugga barnæsku þá er tíminn sem maður ólst upp á alltaf með sérstakan sess í huga manns. Bókin sýnir Ísland sem frábært land árið 1986 sem það var náttúrlega í huga okkar sem barna en ekkert endilega í raunveruleikanum. Þetta var auðvitað einsleitt samfélag, hvorki upplýsinga- né stjórnsýslulög og spilling víða.“

Þó Ragnar segi bókina vel geta þolað framhald lofar Katrín engu um það í bili. Fréttablaðið/Ernir

Myndi þola framhald


Aðspurð hvort það hafi reynst henni erfitt, stöðu sinnar vegna, að skrifa um íslenskt samfélag segir Katrín frelsið hafa falist í að sagan gerist árið 1986.

„Ef ég væri að skrifa bók sem ætti að gerast núna myndi ég lenda í að ritskoða mig. Þetta er annar tími sem ég ber ekki ábyrgð á. En það er enginn leyndur boðskapur í þessu og allt til gamans gert. Svo eiga bókmenntafræðingar eftir að koma og afhjúpa þetta allt og sjá eitthvað sem maður sjálfur sér ekki,“ segir hún og hlær.

Katrín hefur sagt að hún hafi búist við því að útgefandinn myndi hafna bókinni, en ætli hún kvíði fyrsta bókadóminum?

„Ég er nú stjórnmálamaður og hef til dæmis tapað kosningum allreglulega – þannig að þetta getur varla orðið verra en það,“ segir hún og hlær en viðurkennir að vissulega sé þetta persónulegra.

„Ég er nú stjórnmálamaður og hef til dæmis tapað kosningum allreglulega – þannig að þetta getur varla orðið verra en það."

Katrín

Ragnar: „Við værum ekkert að láta bókina frá okkur ef við værum ekki ánægð.“

Útgáfan hefur nú þegar vakið athygli út fyrir landsteinana, hún mun koma út í Bretlandi eftir ár og eru komnir samningar um útgáfu í Frakklandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Skandinavíu.

Katrín: „Ég hugsa að enginn þeirra sem þekkja mig í þessum alþjóðlega kollegahóp sé hissa á þessu. Ekki frekar en þeir sem þekkja mig hér heima. Þeim finnist þetta alveg týpískt ég. Það er mikið hlegið að því á mínu heimili að ég eigi engin áhugamál. Ég elska að vera með börnunum mínum og manninum en ég er ekki mikið að skipuleggja lífið utan vinnu,“ segir Katrín og viðurkennir að vissulega sé frítíminn ekki mikill.

„Svo í stað þess að horfa á sjónvarp þá bara skrifa ég. Ég skipti út neyslu fyrir sköpun – sem reynir meira á en er bara gaman þegar maður hefur gengið með þetta í maganum í langan tíma.“

En ætli forsætisráðherra sjái fyrir sér að skrifa fleiri bækur?

Katrín: „Þetta er nóg í bili – en ég bara veit það ekki.“

Ragnar: „Án þess að ég ætli að lofa upp í ermina á henni þá held ég að þessi saga þoli alveg framhald einhvern tíma.“

Katrín: „Það er nægur tími til þess,“ segir hún ákveðin.