„Við erum að fjalla um tvö meint morðmál. En það eru engin lík. Það eru engin morðvopn. Auk þess heldur er ekkert mótíf,“ segir Jón Magnússon, verjandi Tryggva Rúnars Leifssonar, við málsmeðferð í enduruppteknum Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Hann segir að rannsókn málsins á sínum tíma hafi verið ein mestu mistök sem orðið hafa hér á landi og að hin ákærðu hafi þurft að sæta misþyrmingu og pyntingum á meðan gæsluvarðhaldi yfir þeim stóð.

Hann segir játningar í málinu hannaðar af rannsakendum málsins og því sé ljóst að sakfelling hinna ákærðu komi ekki til greina enda sé ekki hægt að reiða sig á framburð þeirra við rannsókn málsins og fyrir dómi. Tryggvi hlaut þrettán ára dóm í Hæstarétti fyrir að hafa banað Guðmundi Einarssyni í janúar árið 1974, ásamt þeim Sævari Marinó Ciesielski og Kristjáni Viðari Viðarssyni.

Tæplega tveggja ára einangrun

Jón rakti mál skjólstæðings síns, Tryggva Rúnars heitins, fyrir dómi. Hann segir Tryggva hafa verið í miklum sálarháska á meðan á gæsluvarðhaldinu stóð. Alls sat hann í einangrun í 627 daga, við það sem lýst hefur verið sem ómannúðlegar aðstæður í hinu alræmda Síðumúlafangelsi. Á þeim tíma var hann yfirheyrður alls 90 sinnum í samtals 124 klukkustundir. Auk þess var hann færður út fyrir dyr fangelsisins þar sem farið var með hann í vettvangsferðir.

Þá segir Jón að Tryggvi hafi verið samvinnuþýður við rannsókn lögreglu í málinu. Hann hafi hins vegar ekki fengið mannsæmandi meðferð lögreglu né notið stuðnings verjenda sinna.

Dagbækur Tryggva, sem hann hélt úti í Síðumúlafangelsi, beri þess skýrt merki. Margar þeirra hafa glatast en þó eru einhverjar eftir.

Reyndi ítrekað að draga játningu sína til baka

Framan á einni þeirra stendur: „Dagbók, sem saklaus maður heldur hér inni. Út af stóru máli! sem hann er hafður fyrir rangri sök! En sannleikurinn kemur alltaf í ljós þó seint verði. Tryggvi Leifsson.“

Jón bendir á að Tryggvi hafi ítrekað reynt að draga játningu sína til baka án árangurs. Þess sé hvergi getið í dómi Hæstaréttar frá 1980. Vísaði hann til skýrslu sem Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðeherra, lét gera árið 2011. Þar er sérstakur kafli þar sem áreiðanleiki játninganna er umfjöllunarefni.

„Það er hafið yfir skynsamlegan vafa að framburðir Tryggva Rúnars í Guðmundarmálinu, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi voru óáreiðanlegir,“ sagði Jón. Töluverður skortur sé á gögnum, skýrslum og vitnisburði um yfirheyrslur eða vettvangsferðir.

Yfir sig hissa vék Jón að því hvað stjórnandi rannsóknar í málinu að hvarfi Guðmundar hefði sagt um upphaf rannsóknar málsins. Sá kvaðst hreinlega ekki muna hvers vegna ákveðið var að rannsaka hvarf Guðmundar sem sakamál.

Fjölskylda Tryggva í salnum

„Í þessu þekktasta sakamáli á tuttugustu öldinni, eins og saksóknari orðaði það, þá muna rannsakendur og fulltrúi sakadóms sem stjórnaði rannsókninni, ekki eftir því hvers vegna rannsókn hófst í málinu.“

Í sal Hæstaréttar voru ekkja Tryggva, dóttir hans og barnabarn mætt til þess að fylgjast með. Sjálfur lést Tryggvi Rúnar árið 2011 en Jón kvað honum hafa verið mjög í mun að sannleikurinn kæmi í ljós og að nafn hans yrði hreinsað með sýknudómi Hæstaréttar. Hann vísaði til ritgerðar Tryggva Rúnars Brynjarssonar, barnabarns Tryggva, um mál afa síns og dagbækurnar sem hann skrifaði í Síðumúlafangelsinu.

Sagði hann dómstóla þurfa að búa yfir hugrekki, líkt og svo margir aðrir, til að viðurkenna mistök. „Nú er komið að þeirri stundu að hleypa sannleikanum inn.“