Undanfarin ár hefur lífið legið upp á við hjá Valdimari Guðmundssyni söngvara. Hann braust út úr viðjum slæms ávana, kynntist ástinni og eignaðist fjölskyldu. Þar að auki hefur hann haft nóg að gera í tónlistinni og hefur slegið í gegn í nýju hlaðvarpi. Valdimar er í ítarlegu helgarviðtali í helgarblaði Fréttablaðsins.

Valdimar segist hafa verið hlédrægur og feiminn sem strákur í Keflavík. Sonur kennaranna Sveindísar Valdimarsdóttur og Guðmundar Hermannssonar, sem nú eru skilin. Guðmundur var áður fyrr í hljómsveitum og hefur einnig troðið upp með skemmtara. Eina eldri systur á Valdimar, Sylvíu að nafni. Á grunnskólaárunum var Valdimar ekki mjög virkur í félagslífinu en átti nokkra góða vini.

„Ég var ekki óhamingjusamur sem barn og mér var ekki strítt í skólanum, að minnsta kosti ekki alvarlega. Ég hafði mikinn áhuga á tónlist og æfði körfubolta,“ segir hann.

Valdimar byrjaði sjö ára að læra á básúnu og var í lúðrasveit skólans. Hann æfði sig einnig í söng heima og vinir hans hvöttu hann til þess að koma fram. „Ég þorði ekki að syngja opinberlega fyrr en ég var um tvítugt,“ segir Valdimar en þá söng hann Bubbalagið Svartan Afgan ásamt félaga sínum í söngkeppni Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum.

Í grunnskóla var Valdimar ágætisnemandi en í framhaldsskóla fór hann að slugsa. „Ég skreið í gegnum þetta með um tuttugu fimmur. Maður gerði ekkert alla önnina en lærði svo fyrir lokapróf og vonaði það besta. Ég var lengur en flestir að klára þetta en það tókst á endanum,“ segir hann.

Á þessum árum glæddist félagslífið hins vegar. „Þegar ég byrjaði að drekka varð ég félagslyndari og fór að mæta í partíin. Vinahópurinn stækkaði töluvert á þessum árum,“ segir hann.

Valdimar var og er hávaxinn og æfði körfubolta vel fram á framhaldsskólaárin. Sjálfur segist hann hafa verið sæmileg skytta en ekki hafa átt neinn séns í meistaraflokkinn, enda Keflavík með sterkustu körfuknattleiksliðum landsins.

„Ég vissi ekkert hvað ég vildi verða og var óttalega stefnulaus. Ég á heldur ekkert sérstaklega margar minningar frá þessum árum. Ætli ég hafi ekki verið hálfgerð gufa sem sveif einhvern veginn í gegnum lífið,“ segir hann og hlær. „Ætli ég hafi ekki verið að bíða eftir að neistinn fyndi mig?“