Lög­reglu­yfir­völd í Chi­cago í Banda­ríkjunum hafa loks borið kennsl á líkams­leifar sem fundust grafnar undir húsi rað­morðingjans John Wa­yne Gacy á áttunda ára­tug síðustu aldar.

Francis Wa­yne Alexander var rúm­lega tví­tugur þegar hann flutti frá Norður-Karó­línu til Chi­cago árið 1976. Að­stand­endur hans heyrðu ekki í honum aftur og virtist hann hafa horfið af yfir­borði jarðar.

Ekki tókst að bera kennsl á öll fórnar­lömb Gacy, sem var sak­felldur fyrir morð á 33 ungum karl­mönnum og drengjum á árunum 1972 til 1978.

Árið 2011 var á­kveðið að rann­saka nánar líkams­leifar þeirra sem ekki hafði tekist að bera kennsl á. Lög­regla óskaði eftir því að að­stand­endur ein­stak­linga sem hurfu í ná­grenni Chi­cago á áttunda ára­tugnum myndu gefa sig fram með það í huga að bera saman DNA-sýni. Í til­felli Francis bar það árangur en talið er að Gacy hafi myrt hann árið 1976 eða 1977.

Systir hans, Caro­lyn Sanders, segir við banda­ríska fjöl­miðla að það sé á­kveðinn léttir að vita hvað varð um bróður hennar. Þó sé erfitt að sætta sig við þá stað­reynd að hann hafi verið myrtur. Ekki er vitað hvernig leiðir þeirra Francis og Gacy lágu saman og mun það trú­lega aldrei aldrei koma í ljós.

Gacy var dæmdur til dauða og líf­látinn árið 1994.