Kristinn Karl Brynjars­son, fékk tölvu­póst frá Krabba­meins­fé­laginu fyrir mis­tök þar sem honum var boðið að taka þátt í „um­svifa­mikilli rann­sókn sem ber heitið Átta­vitinn og er um reynslu fólks sem greinst hefur með krabba­mein.“

Tölvu­pósturinn kom heldur flatt upp á Kristinn þar sem hann hefur aldrei greinst með krabba­mein. „Af hverju ætli Krabba­meins­fé­lagið viti að ég hafi verið greindur með krabba­mein, ef ég veit ekki til þess sjálfur að það hafi gerst?“ skrifar Kristinn í færslu á Face­book þar sem hann deilir skjá­skoti af póstinum.

Í sam­tal við Frétta­blaðið stað­festir Kristinn að hann hafi aldrei greinst með krabba­mein og því hafi pósturinn verið heldur ó­þægi­legur. Hann hafði sam­band við Krabba­meins­fé­lagið sem sagði að honum að mis­tök hafi verið að ræða.

Tölvupósturinn sem Kristinn fékk.
Ljósmynd/skjáskot

„Sæll Kristinn. Tölvu­póstur eins og þú fékkst sendan er að­eins sendur eftir að sím­tal hefur átt sér stað þar sem gefið er sam­þykki fyrir að hann sé sendur. Það lítur því út fyrir að net­fangið hafi verið skráð rangt og biðjumst við af­sökunar á þessum mis­tökum. Með góðri kveðju, rann­sóknar­teymi Átta­vitans," segir í póstinum sem Kristinn fékk.

Honum finnst þetta einnig frekar skrýtið þar sem aldrei hafi verið hringt í hann og þá segist hann vera eini Kristinn Brynjars­son í þjóð­skrá.

Undir póstinn sem Kristinn fékk skrifar Jóhanna E. Torfa­dóttir PhD, á­byrgðar­maður Átta­vitans og aðjúnkt við Lækna­deild Há­skóla Ís­lands.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Jóhanna að úr­taks­hópurinn fyrir rann­sóknina er einungis ein­staklingar sem hafa verið skráðir með mein í krabba­meins­skrá.

Hún þekkti ekki til máls Kristins en Krabba­meins­fé­lagið lendir hins vegar í því að 0.1% kannast ekki við greiningu þá oftast þar sem fólk hefur greinst með mein­laus æxli og læknir hefur notað önnur orð yfir.

Þá er rétt að taka fram að það á ekki við í þessu til­felli þar sem tölvu­pósturinn sem Kristinn fékk var sendur fyrir mis­tök. Undir færslu Kristins á Face­book segist önnur kona hafa lent í því sama og fengið sams­konar póst án þess að hafa verið greind með krabba­mein á lífs­leiðinni.