Kristinn Karl Brynjarsson, fékk tölvupóst frá Krabbameinsfélaginu fyrir mistök þar sem honum var boðið að taka þátt í „umsvifamikilli rannsókn sem ber heitið Áttavitinn og er um reynslu fólks sem greinst hefur með krabbamein.“
Tölvupósturinn kom heldur flatt upp á Kristinn þar sem hann hefur aldrei greinst með krabbamein. „Af hverju ætli Krabbameinsfélagið viti að ég hafi verið greindur með krabbamein, ef ég veit ekki til þess sjálfur að það hafi gerst?“ skrifar Kristinn í færslu á Facebook þar sem hann deilir skjáskoti af póstinum.
Í samtal við Fréttablaðið staðfestir Kristinn að hann hafi aldrei greinst með krabbamein og því hafi pósturinn verið heldur óþægilegur. Hann hafði samband við Krabbameinsfélagið sem sagði að honum að mistök hafi verið að ræða.

„Sæll Kristinn. Tölvupóstur eins og þú fékkst sendan er aðeins sendur eftir að símtal hefur átt sér stað þar sem gefið er samþykki fyrir að hann sé sendur. Það lítur því út fyrir að netfangið hafi verið skráð rangt og biðjumst við afsökunar á þessum mistökum. Með góðri kveðju, rannsóknarteymi Áttavitans," segir í póstinum sem Kristinn fékk.
Honum finnst þetta einnig frekar skrýtið þar sem aldrei hafi verið hringt í hann og þá segist hann vera eini Kristinn Brynjarsson í þjóðskrá.
Undir póstinn sem Kristinn fékk skrifar Jóhanna E. Torfadóttir PhD, ábyrgðarmaður Áttavitans og aðjúnkt við Læknadeild Háskóla Íslands.
Í samtali við Fréttablaðið segir Jóhanna að úrtakshópurinn fyrir rannsóknina er einungis einstaklingar sem hafa verið skráðir með mein í krabbameinsskrá.
Hún þekkti ekki til máls Kristins en Krabbameinsfélagið lendir hins vegar í því að 0.1% kannast ekki við greiningu þá oftast þar sem fólk hefur greinst með meinlaus æxli og læknir hefur notað önnur orð yfir.
Þá er rétt að taka fram að það á ekki við í þessu tilfelli þar sem tölvupósturinn sem Kristinn fékk var sendur fyrir mistök. Undir færslu Kristins á Facebook segist önnur kona hafa lent í því sama og fengið samskonar póst án þess að hafa verið greind með krabbamein á lífsleiðinni.